Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri vill skoða þann möguleika að bærinn taki yfir rekstur Akureyrarflugvallar. Málefni flugvallarins voru til umræðu á síðasta bæjarstjórnarfundi. Gunnar sagði í fundi bæjarstjórnar að hann hefði ekki nokkra trú á því að Isavia hafi áhuga á að byggja flugvöllinn upp.
Í samtali við Vikudag segir Gunnar að hann muni taka málið upp á bæjarráðsfundi og leggja fram tillögu þess efnis að Akureyrarbær fari í þá vinnu að gera viðskiptaáætlun um rekstur Akureyrarflugvallar. Útfrá þeirri niðurstöðu verði svo metið hvort Akureyrarbær geti tekið reksturinn yfir.
Gunnar Gíslason
„Ég held að það sé nokkuð ljóst að við munum fara í þessu vinnu miðað við umræðurnar á bæjarstjórnarfundinum og að það sé þverpólitísk samstaða um þetta mál. Það er ekkert verra en að bíða út í hið óendanlega," segir Gunnar.
Nánar verður fjallað um málið í Vikudegi sem kemur út á fimmtudaginn.