Vill sjá fólkvang á svæði Akureyrarvallar

Hér má sjá lokatillögu AVH og Landslags ehf. að breyttri landnotkun við Akureyrarvöll. Þórhallur seg…
Hér má sjá lokatillögu AVH og Landslags ehf. að breyttri landnotkun við Akureyrarvöll. Þórhallur segir rétt að bæjarstjórn styðjist við þessar tillögur þegar framtíð svæðisins verður ákveðin.

Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ætlar að taka upp skipulag á Akureyrarvelli í bæjarstjórn fyrir fjárhagsáætlun bæjarins árið 2022 þar sem framtíð svæðisins verður ákveðin. Hugmyndina segir Þórhallur vera að breyta vellinum í fólkvang sem myndi nýtast við ýmsa viðburði og tækifæri.

Þórhallur Jónsson

Í dag er völlurinn eingöngu notaður fyrir knattspyrnuleiki hjá KA á sumrin en að öðru leyti er svæðið ekkert notað og því vannýtt. KA er með samning við Akureyrarbæ um afnot af vellinum til ársins 2024 en samkvæmt upplýsingum blaðsins vill félagið flýta uppbyggingu á KA-svæðinu og losna við Akureyrarvöll aftur til bæjaryfirvalda.

Útivist, verslun og þjónusta

Töluverð umræða hefur verið um framtíð Akureyrarvallar undanfarið og er sú umræða ekki ný af nálinni. Árið 2009 var kynnt skýrsla innan bæjarkerfisins um íþróttavallarsvæðið á Akureyri og framtíð þess sem vinnuhópur hafði unnið að í um tvö ár, eða frá árinu 2007. Þar komu fram ýmsar hugmyndir, m.a. að gert yrði ráð fyrir að Akureyrarvöllur yrði lagður af og að á svæðinu verði blönduð landnotkun íbúðarbyggðar, útivistarsvæðis, verslunar og þjónustu.

Bílastæði í miðbænum yrði fyrst og fremst í bílakjöllurum, innan lóða, í götustæðum og á safnstæðum í jaðri hans. Almennt var gert ráð fyrir samfelldri 4-5 hæða randbyggð í kjarna miðbæjarins, þ.e. samfelldum húsaröðum sem standa yfirleitt við lóðamörk að götu.

Vinni út frá þessum tillögum

Þórhallur segir sjálfsagt að bæjaryfirvöld vinni út frá þessum tillögum þegar framtíðarskipulag svæðisins verður ákveðið. „Ég sé fyrir mér að við getum haft þessar tillögur sem viðmið sem við sníðum svo að okkar eigin hugmyndum með ýmsum breytingum. Þessar tillögur sem birtast þarna í skýrslunni eru að mörgu leyti í anda hugmynda okkar Sjálfstæðismanna eins og við lögðum fram fyrir kosningar; að þarna verði fólkvangur og hægt að halda fjölmenna viðburði eins og 17. Júní hátíðarhöld, Sparitónleika um verslunarmannahelgina og að þarna verði verslun og íbúabyggð í kring.

Lyfta svæðinu upp um ½ hæð, setja bílastæði undir allan reitinn, halda stúkunni og nýta brekkuna,“ segir Þórhallur. Hann segir jafnframt að svæðið þurfi að vera breytilegt svo það nýtist einnig yfir vetrartímann. „Til dæmis fyrir skautasvell eða jólaþorp. Það eru mörg tækifæri sem liggja í þessari lóð sem við þurfum að nýta okkur.“


Athugasemdir

Nýjast