Vill blása lífi í Sjómannadaginn

Húni ll á siglingu  Mynd  Þorgeir Baldurss.
Húni ll á siglingu Mynd Þorgeir Baldurss.

 Sigfús Ólafur Helgason safnstjóri Iðnaðarsafnsins og fyrrum sjómaður hefur viðrað hugmyndir sínar um það að hefja sjómannadaginn á Akureyri til vegs og virðingar á ný, en allur gangur hefur verið á hátíðarhöldum hér í bæ sl. áratug eða svo.  Stundum og stundum ekki, reyndar stundum bannað eins og á tímum Covid hefur svolítið verið viðkvæðið þegar sjómannadagurinn á i hlut.  Hugmynd Sigfúsar gengur út á að hér verði þriggja daga vegleg hátíð sem muni fara fram vítt og breytt um bæinn frá Iðnaðarsafninu og norður í Sandgerðisbót.

Sandgerðisbót stærsta smábátahöfn landsins og Leirutjörn vannýtt perla

,,Ætlunin  er að fá trillu - og verbúðareigendur til að hjálpa okkur að gera bryggjustemmingu í Bótinni með opnun verbúða, gefa jafnvel harðfisk sem ég veit að margir eru að framleiða, skoða má möguleika á sölu á t.d. harðfiski og signum fiski svo eitthvað sé nefnt. Skoðun á bátum. Fá harmoníkuleikara til að vera um borð og eða á röltinu um bryggjusvæðið og spila sjómannalög. Vera með færanlegt svið Akureyrarbæjar  í bótinni og þar getum við verið með söng og höfum reyndar fengið eina fyrirspurn frá áhugasömum með  að koma fram og syngja sjómannalög. Einnig að taka aftur upp þann góða sið sem var að heiðra aldraða sjómenn“ sagði Sigfús.  

Ég vil einnig að við höldum  veglega sjómannaveislu á veitingastað hér í bæ og eru nú þegar komnar ákveðnar hugmyndir þar um. Hugmyndir er að áhafnir skipa ásamt mökum og jafnvel fjölskyldu geti hist yfir veislukvöldverði.   

Húni ll eru svo ákveðin miðpunktur í þessari dagskrá en líkan af bátnum  er í smíðum eins og kunnugt er  og er stefnt að því að það verði afhjúpað á laugardeginum en í ár eru 60 ár liðin frá því að Húni ll var sjósettur og því ærið tilefni til að fagna.  ,, Búa til vatnaveröld á Leirutjörn. Fá bílslöngur og kajaka frá Nökkva handa börnunum og kannski fleirum og leyfa þeim að busla í tjörninni. Vera með ratleik á tjörninni. Setja hugmyndaflugið á fulla ferð og gera eitthvað skemmtilegt fyrir fjölskylduna. Bjóða kaffi og meðí handa fullorðnum og börnum,“

Sjómannadagurinn sjálfur

Síðan verður sjómannadagurinn sjálfur  með miklum hátíðarblæ því við munum flagga íslenska fánanum á öllum fánastöngum bæjarbúa. Síðan verður haldin sjómannamessa í Glerárkirkju og munum við svo  leggja  blómsveig að  minnismerkinu um drukknaða og horfna sjómenn.

Eftir hádegi á sjómannadeginum sjálfum mun svo Húni ll sigla með þá bæjarbúa sem vilja um fjörðinn Það sem vakir fyrir mér fyrst og fremst er að gera sjómannadaginn að hátíð sem ég man sjálfur þegar ég stundaði sjómennsku og taka upp þessa gömlu góðu siði að heiðra sjómenn t.d. er hlutur sem setur alltaf svo mikinn hátíðarblæ á dagskrána.

Nú er bara að fá nokkra vaska sjómenn með mér í lið til að koma þessu á, þetta er bara skemmtileg vinna og allstaðar þar sem ég viðrað þessar hugmyndir mínar hefur mér verið vel tekið og ég er sannfærður um að bæjarbúar munu taka þátt í þessu með okkur.  

Áhugasamir sjómenn endilega hafið samband við mig og við kýlum á það.

Umfram allt er þetta gert til að   ,,Hafa gaman“ enda rík ástæða til því Akureyri er svo sannarlega mikill útgerðarbær sem á mikið undir sjómönnum og því eigum við að fagna stolt“ sagði Sigfús.

 


Athugasemdir

Nýjast