„Viljum að sjálfsögðu ekki lenda í störukeppni við ríkið“

Mynd þessi var tekin í nóvember 2021 þegar Aldey Unnar Traustadóttir þáverandi forseti sveitarstjórn…
Mynd þessi var tekin í nóvember 2021 þegar Aldey Unnar Traustadóttir þáverandi forseti sveitarstjórnar Norðurþings tók fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili á Húsavík. Síðan hefur holan staðið óbreytt. Mynd/epe

Á sveitarstjórnarfundi í Norðurþingi fimmtudaginn 19. janúar var lagður fram til afgreiðslu viðauki við verkkaupasamning vegna byggingar hjúkrunarheimilis á Húsavík.

Í viðaukanum er m.a. kveðið á um skiptingu á byggingu tengigangs á milli ríkis og sveitarfélaganna í sömu hlutföllum og í byggingu hjúkrunarheimilisins eða 85% kostnaður á ríki og 15% á sveitarfélögunum. Þá er gert ráð fyrir að hætta við byggingu á fjölnota sal en önnur rými sem falla að öllu leyti á sveitarfélögin verði eign Dvalarheimilis aldraðra sf. og til ráðstöfunar og útleigu af hálfu þess félags.

 Sveitarstjórn samþykkti samhljóða fyrir sitt leyti fyrirliggjandi viðauka.

 Þá ítrekaði sveitarstjórn mikilvægi þess að samningsaðilar óski eftir leyfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrir útboði á verklegri framkvæmd við Hjúkrunarheimilið á Húsavík sem fyrst, byggt á uppfærðum stærðar- og kostnaðartölum í viðauka VK-23005.

„Ég vil að það komi fram hérna að það sem við ákváðum á fundi sveitarfélaganna 2. janúar að óska eftir því að fjölnota salurinn yrði felldur út úr tillögunni, kostnaður sem fellur eingöngu á sveitarfélögin,“ sagði Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings og bætti við að ferlið allt taki 33 mánuði, þar af sé útboðsferlið þrír mánuðir.

Við eigum eftir að ganga frá með ráðuneytinu að við þurfum að gera viðauka með samningnum vegna kostnaðar við tengiganginn. Auðvitað er þetta háð því að það fáist verktaki í verkið sem við vitum ekkert hvernig gengur áður en útboðið fer í gang,“ sagði Katrín enn fremur.

Áki Hauksson, M-lista spurði hvort komið hafi til tals hvort sveitarfélögin gætu fylgt ríkinu í einhvers konar lánapakka. Katrín svarað því að gert væri ráð fyrir að greiðslubyrði sveitarfélaganna vegna framkvæmdanna myndi dreifast á sjö ár.

Hjálmar Bogi Hafliðason tók til máls og lýsti furði sinni á því að sveitarfélögin væru að draga vagninn varðandi það að koma uppbyggingunni af stað. Þetta væri sannarlega málaflokkur sem ríkið bæri ábyrgð á.

„Við viljum að sjálfsögðu ekki lenda í störukeppni við ríkið sem þó ber ábyrgð á málaflokknum. Þessi undarlega staða að við sem berum ekki ábyrgð á þjónustunni að það séum við sem erum að draga vagninn fyrir ríkið sem ber ábyrgð á þjónustunni. Þetta er alveg galið en við þurfum að komast af stað með þetta verkefni,“ sagði Hjálmar.


Athugasemdir

Nýjast