Vilja víðtæka samstöðu um flugvallarmálið
Samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn Akureyrar í gær að skora á borgarfulltrúa Reykjavíkur að gefa hinni svokölluðu Rögnunefnd svigrúm til að ljúka sinni vinnu vegna framtíðarskipulags við Reykjavíkurflugvöll og að ekki verði afgreitt að svo komnu máli framkvæmdaleyfi á Hlíðarendasvæðinu í námunda við flugvöllinn.
Þrátt fyrir að eindreginn vilji Akureyringa í þessu máli hafi lengi legið fyrir, var samþykkt seint í gærkvöldi í borgarstjórn Reykjavíkur að hefja undirbúningsframkvæmdir á Hlíðarendasvæði við Reykjavíkurflugvöll. Samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar sem bókuð var með 11 samhljóða atkvæðum hljóðar svo:
Bæjarstjórn Akureyrar minnir enn og aftur á mikilvægi innanlandsflugs og að aðgengi landsbyggðanna að höfuðborginni er lykilatriði fyrir farsæla byggðaþróun. Mikilvægt er að sem víðtækust samstaða allra landsmanna náist um framtíðarfyrirkomulag flugvallar á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarstjórn Akureyrar krefst þess að nefnd sem kennd er við Rögnu Árnadóttur, Rögnunefndin, fái svigrúm og þann tíma sem hún þarf til þess að leggja fram sínar tillögur og skorar á borgarfulltrúa Reykjavíkur að beita sér fyrir því að ekki verði afgreidd framkvæmdaleyfi á Hlíðarendasvæðinu fyrr en Rögnunefndin hefur lokið vinnu sinni.