Vilja tvær akgreinar á Glerárgötu allt út að Tryggvabraut

Svifryksmengun, einkum við Hjalteyrargötu og eins Glerárgötu angrar íbúa Oddeyrar og vöktu þeir máls á menguninni á aðalfundi hverfisnefndar Oddeyrar sem haldin var nýverið.  Á fundinum flutti  Hólmkell Hreinsson áhugavert erindi um sældarbæinn Akureyri (slow town), þar sem fram kom hversu góður bær Akureyri er  og með aukinni almenningsvitund og umræðu væri auðveldlega hægt að gera hann enn betri.   

„Það sem helst virðist liggja Oddeyringum á hjarta er svifryksmengun í bænum og sérstaklega við Hjalteyrargötuna," segir Auður Jónasdóttir formaður nefndarinnar.  Hún bendir á að austan götunnar, neðst á Oddeyrinni séu stór malarsvæði notuð sem bílastæði stórra flutningabíla og hafi íbúar bent á að nauðsynlegt væri að binda þessi svæði með einhverjum hætti, malbika þau og eða tyrfa að hluta.  „Fólk finnur mjög fyrir þessari svifryksmengun, einn íbúanna sem hjólar í vinnuna daglega sett eitt sinn upp hvíta grímu fyrir vit sér þegar hann fór af stað, hún var grá þegar hann kom í vinnuna skömmu síðar," segir Auður og bendir á að það segi sína sögu.

Oddeyringar vilja einnig halda Akureyrarvelli sem grænu svæði og helst að opna hann almenningi svo allir fái að njóta hans og eins gerði það íbúum auðveldara að komast frá Glerártorgi og í miðbæinn.  Þá nefnir Auður að í tengslum við nýtt miðbæjarskipulag þar sem gert er ráð fyrir að Glerárgata verði tvær akgreinar frá Torfunefni og að mótum hennar og Strandgötu hafi komið fram hugmyndir um að tveggja akgreinakafli yrði lengi.  Hann næði allt að mótum Glerárgötu og Tryggvagötu, „með aðgerðum af því tagi gætum við kannski minnkað svifryk í bænum og þá tengist hverfið líka betur við aðra hluta bæjarins.  Við höfum viðrað þessar hugmyndir en ég veit ekki hvernig hefur verið tekið í þær," segir hún. 

Auður nefnir einnig að til umræðu hafi komið gerð hringtorgs á mótum Grænugötu og Glerárgötu, en þar hafa um árin oft orðið árekstrar bíla með tilheyrandi tjóni og slysum á fólki, „en hringtorg á þessum stað myndi líka draga mjög úr umferðarhraða," segir hún.  Fleiri bekkir og ruslafötur á vegum bæjarins í hverfinu voru líka á dagskrá

Hverfisnefndin veitti viðurkenningu á fundinum, fyrir lofsvert framtak Oddeyri til framdráttar. Hana fékk Verslunin Hreiðrið, Norðurgötu 8 en þar hafa eigendur gert upp gamalt og þekkt hús og haldið upprunalegum atvinnurekstri þar sem tryggir okkur hverfisverslun. Umhverfið í kringum húsið er einnig mjög snyrtilegt og öðrum til fyrirmyndar og hvatningar að halda Oddeyrinni fallegri.

Nýjast