Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri vill stytta sumarlokanir á leikskólum niður í tvær vikur en flestir leikskólar bæjarins loka í fjórar vikur á sumrin. Með þessu móti væri hægt að koma í veg fyrir að sama fólkið fari í frí á sama tíma yfir sumarmánuðina og foreldrar fái meiri tíma börnunum sínum í sumarfríum. Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tók málið upp á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku ásamt Margréti Kristínu Helgadóttur bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar.
Eva Hrund sagði núverandi fyrirkomulag koma illa við marga foreldra og vinnustaði. Nefndi hún sérstaklega Sjúkrahúsið á Akureyri, þar komi iðulega upp vandamál á sumrin vegna sumarlokana leikskóla og á mörgum vinnustöðum sé farið að bera á pirringi hjá öðru starfsfólki.
Eins og Vikudagur fjallaði um í sumar lokuðu níu af ellefu leikskólum Akureyrarbæjar á sama tíma, frá 14. júlí til 11. ágúst og voru allir leikskólar bæjarins lokaðir á sama tíma í tvær vikur, frá 14. júlí til 1. ágúst. Áætlað er að kostnaðurinn við styttingu sumarlokana niður í tvær vikur sé á bilinu 12-14 milljónir. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, sagði að skoða þyrfti málið í stærra samhengi og nefndi börn hjá dagforeldrum og yngstu börn í grunnskóla því til stuðnings.
-þev