Vilja stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um allt að 80 km

Öxnadalsheiðin. Vafalaust myndu margir fagna styttingu leiðarinnar milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Öxnadalsheiðin. Vafalaust myndu margir fagna styttingu leiðarinnar milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Möguleikar á styttingu þjóðvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur voru til umræðu á bæjarstjórnarfundi Akureyrar á dögunum. Um er að ræða styttingu sem geti numið allt að 80 km. Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi hóf umræðuna og benti á að stytting á leiðinni hafi verið í umræðunni í áratugi og sagði málið snúast um fleiri þætti en styttingu leiðar.

Íbúar ýmissa staða utan höfuðborgarsvæðisins ásamt fyrirtækjum beri sig illa undan flutnings- og ferðakostnaði sem munar mikið um. Fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu hafa í gegnum tíðina skoðað möguleika á flutningi frá Eyjafjarðarsvæðinu af þessum sökum. „Það útaf fyrir sig er grafalvarlegt mál og því nauðsynlegt að halda þessu máli vakandi,“ sagði Gunnar.

Nokkrir valkostir

Hann segir í samtali við Vikublaðið að komið hafi verið inn á eina þrjá til fjóra valkosti í þessum umræðum. „Bókun bæjarstjórnar gengur fyrst og síðast út á að skoðaðir verði allir möguleikar og farið í þá fýsilegustu. Í fyrirliggjandi tillögu að samgönguáætlun er ekkert minnst á framkvæmdir við þjóðveg eitt á þessari leið, en þó eru þarna þeir kostir sem eru sennilega arðbærastir fyrir samfélagið allt. Þeir eru hins vegar mjög umdeildir og sennilega er það þess vegna sem þeir hafa ekki verið í pólitískri eða faglegri umræðu að neinu viti. Við viljum breyta því,” segir Gunnar og á þar við Vindheimaleiðina í Skagafirði og Húnavallaleiðina sem myndi stytta leiðina um 20 km og fækka slysum, og svo stóru hugmyndina sem er leiðin um Stórasand sem myndi stytta leiðina mest, eða um allt að 80 km. Hugmyndin á sínum tíma varðandi þá styttingu var að aka um Öxnadalsheiði eins og nú, en sveigja vestur yfir Héraðsvötn við Silfrastaði, aka upp úr Gilhagadal, yfir Blöndu nálægt Blöndulóni, suðvestur yfir Stórasand niður með Norðlingafljóti að Húsafelli, suður Kaldadal, um Þingvöll og Mosfellsheiði til Reykjavíkur. Yrði leiðin um 308 km og því stytting um 80 km.

Gunnar Gíslason

Tveir stærstu þéttbýliskjarnarnir

Gunnar bendir ennfremur á að þarna sé verið að tala um leiðina á milli tveggja langstærstu þéttbýliskjarna á landinu og því mikilvægt að máli verði skoðað. Í bókun bæjarstjórnar hveturAkureyrarbær ríkisstjórn og Alþingi til að meta og taka afstöðu til hugmynda sem fram hafa komið um styttingu þjóðvegar 1 á milli Eyjafjarðar og Reykjavíkur. Ljóst sé að verulegur þjóðhagslegur ávinningur hljóti af styttingu leiðarinnar sem myndi bæta samkeppnishæfni svæðisins á atvinnu- og íbúamarkaði, jafnframt að það hljóti að vera þjóðþrifamál að koma framkvæmdum sem þessum inn í samgönguáætlun. 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast