Vilja fá græn verkefni af öllu landinu

Ráðherrarnir Áslaug Arna og Guðlaugur Þór ásamt Kjartani Ólafssyni hjá Transition Labs
Ráðherrarnir Áslaug Arna og Guðlaugur Þór ásamt Kjartani Ólafssyni hjá Transition Labs

Í þriðja sinn stendur Norðanátt, með stuðningi frá Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, fyrir Fjárfestahátíð á Siglufirði. Hátíðin fer fram þann 20. mars á næsta ári og leitar Norðanátt nú eftir nýsköpunarverkefnum í leit að fjármögnun úr öllum landshlutum.

„Öll sem telja verkefni sín falla undir orkuskipti, hringrásarhagkerfið, fullnýtingu auðlinda eða aðrar grænar lausnir, er frjálst að senda inn umsókn“, segir Kolfinna María Níelsdóttir, verkefnastjóri Norðanáttar.

„Fyrir síðustu hátíð fengum við yfir 30 umsóknir úr öllum landshlutum og voru tíu verkefni valin inn á hátíðina. Það verður því spennandi að sjá hvað gerist á næsta ári, en við erum að leita bæði eftir sprotafyrirtækjum sem eru á fyrstu stigum fjármögnunar og vaxtarfyrirtækjum sem hafa fengið fjármögnun, eða vaxið af eigin tekjum en þurfa fjármagn til að stækka enn frekar.“

Mýsköpun

Tækifærin við að taka þátt gríðarmörg

Að sögn Kolfinnu verður Fjárfestahátíðin samblanda af tengslaviðburðum, fjárfestakynningum, ráðstefnu og fleira.

„Við erum alltaf að reyna að breyta og bæta hátíðina og passa að vera aldrei eins. Við munum leggja Siglufjörð undir okkur þennan dag og förum í svolítið ferðalag um miðbæinn til að sækja mismunandi viðburði. Svo ætlum við að fá góða gesti til okkar erlendis frá, sem er virkilega spennandi.“

Kolfinna segir teymin, sem valin verða af sérstakri valnefnd, fá góða þjálfun og leiðsögn hjá sérfræðingum áður en þau stíga á stokk á hátíðinni.

„Við viljum að þeir sem halda fjárfestakynningu séu vel undirbúnir þar sem salurinn er fullur af fjárfestum og höfum því svokallað “boot-camp” fyrir stóra daginn. Einnig komum við til móts við teymin og verður þátttaku þeirra og gisting þeim að kostnaðarlausu. Þannig stuðlum við að jöfnum tækifærum fyrir öll að okkar mati, hvaðan af landinu sem þau koma“, segir Kolfinna.

„Við brennum fyrir því að gefa frumkvöðlum og þeim sem starfa við nýsköpun tækifæri. Við viljum stuðla að sjálfbærni og bættri nýtingu auðlinda og um leið stuðla að verðmætasköpun.
Fjárfestahátíðin er einn liður í því.“

Umsóknarfrestur er til og með 31. janúar 2024.


Athugasemdir

Nýjast