Hópur fólks á Akureyri hefur hrint af stað undirskriftalista þar sem skorað er á Akureyrarbæ að nýta Hafnarstræti 73, sem Dynheimar voru áður, sem tónlistarhús og endurvekja tónlistarmenningu Akureyrar.
Undirskriftasöfnunin hefur staðið yfir í um tvær vikur og hafa um 200 manns skráð sig á listann. Undirskrifalistann má nálgast á Facebook undir heitinu Dynheimar aftur sem hljómsveitar og tónlistarhús eða með því að smella hér.
Dynheimar voru starfræktir í um 30 ár frá árinu 1970. Húsnæðið var nýtt sem tónlistarhús og gegndi hlutverki í tónlistarmenningu Akureyrar. Ófáir tónleikar voru haldnir í Dynheimum fyrir upprennandi hljómsveitir, fjöldi ýmiss konar balla og diskóteka voru haldin þar og var húsið einnig notað að hluta til fyrir leiklistarfólk, ásamt félagsmiðstöð fyrir unglinga.
Í prentútgáfu Vikudags sem kemur út í dag er nánar fjallað um málið og rætt við Finn Inga Erlendsson tónlistarmann og einn af þeim sem stendur fyrir undirskriftasöfnunni.
-þev