Vilja byggja tómstundahús fyrir börn og ungmenni

Húsnæði Frístundar fyrir 1. - 4. bekk á Húsavík.
Húsnæði Frístundar fyrir 1. - 4. bekk á Húsavík.

Í fjölskylduráði Norðurþings hefur undanfarin misseri mikið verið rætt um stöðu og húsnæðismál frístundastarfs í sveitarfélaginu. Fulltrúar B-lista framsóknar og félagshyggju og E-lista samfélagsins lögðu til á fundi ráðsins í vikunni að hafist verði handa við byggingu sem myndi hýsa félagsmiðstöð, starfsemi Frístundar og ungmennahúss á Húsavík.

Leggja fulltrúarnir til að byggingin verði á svæðinu í kringum Borgarhólsskóla, Íþróttahöllina og Tún og að gert verði ráð fyrir framkvæmdunum í  fjárhagsáætlun fyrir árið 2021.„Starfsemi Frístundar á Húsavík er í óhentugu húsnæði. Félagsmiðstöð fyrir þrettán til sextán ára hefur verið í kjallara í Framhaldsskólanum á Húsavík. Samningi þar um hefur verið sagt upp og ljóst að leita þarf að bráðabirgðahúsnæði fyrir komandi vetur. Sveitarfélagið hefur ekki starfrækt félagsmiðstöð eða frístundastarf fyrir tíu til tólf ára sem stendur til bóta þó húsnæði undir starfsemina sé ekki fundið. Foreldrar þessa aldurshóps hafa kallað eftir þessari þjónustu. Frístund fyrir fatlaða er í bráðabirgðahúsnæði.
Það eru augljósir kostir að staðsetja slíka byggingu í námunda við skóla og íþróttastarf. Þannig flæðir þekking og reynsla á milli. Auk þess að nýta húsakost milli bygginga. Sveitarstjórn hefur í þrígang samþykkt samhljóða álíka tillögu. Fyrst í febrúar árið 2019,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Lilja Skarphéðinsdóttir og Bylgja Steingrímsdóttir voru fylgjandi tillögunni en Benóný Valur Jakobsson, Berglind Hauksdóttir og Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir á móti og bókuðu eftirfarandi:

„Í ljósi fjárhagstöðu sveitarfélagsins væri óábyrgt að lýsa yfir frekari byggingu húsnæðis á árinu 2021. Ljóst er að bygging nýs hjúkrunarheimilis mun á árinu 2021 taka til sín nánast allt það fjármagn sem ætlað verður til framkvæmda.
Við undirrituð teljum vissulega brýna þörf á húsnæði undir frístundaheimili en sveitarfélagið á þegar margar eignir og óvíst í hvað þær verða nýttar. Með tilkomu nýs hjúkrunarheimilis stendur Hvammur auður. Hægt væri að nýta hluta af þeirri byggingu færa til starfsemi þangað og losa þá um húsnæði sem getur hentað undir frístundastarf. Því er að okkar mati ekki tímabært að hefja byggingu á nýju húsnæði á þessum tímapunkti.“

Á sama fundi var samþykkt tillaga Berglindar Hauksdóttur um að gerð verði sú breyting á skipulagi á fjölskyldusviði að málaflokkur frístundar 1.-4. bekkjar færist að öllu leyti undir stjórn grunnskóla Norðurþings og þar með stjórnendur skólanna. Þessi breyting taki gildi frá og með 1. september 2020 að undangenginni tilfærslu rekstrarfjármuna til málaflokksins skv. fjárhagsáætlun 2020 yfir til grunnskólanna og staðfestingu á því eftir því sem þörf er á í sveitarstjórn/byggðaráði.

-epe

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast