Vilja aukafund í bæjarstjórn vegna miðbæjarins
Minnihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar hefur sent forseta bæjarstjórnar bréf þar sem óskað er eftir aukafundi varðandi miðbæ Akureyrar. Minnihlutinn vill að rætt verði um afgreiðslu skipulagsnefndar á málefnum Hafnarstrætis 106, umræður verði um fyrirspurn til bæjarstjórnar frá Ragnari Sverrissyni sem birtist í Akureyri Vikublaði þann 5. febrúar sl. og einnig að rætt verði um framtíðarsýn bæjarstjórnar varðandi miðbæinn. Óskað er eftir því að fundurinn verði haldinn þriðjudaginn 10. mars næstkomandi.
Undir bréfið skrifa Margrét Kristín Helgadóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Gunnar Gíslason, Eva Hrund Einarsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.
Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hefur verið deilt um Hafnarstræti 106, jafnan nefnt Braunhúsið. Umræður um afgreiðslu byggingarleyfis vegna breytinga á útliti og innra skipulagi hússins voru teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar Akureyrarbæjar nýverið. Ágreiningur er á milli nefndarinnar og skipulagsstjóra bæjarins um túlkun á hvað sé óveruleg eða veruleg breyting og því hvort skipulagsstjóra bar að leggja málið fyrir skipulagsnefnd eða ekki.
Skipulagsnefnd gerir athugasemd við að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir verulegum breytingum á Hafnarstræti 106 án umfjöllunar nefndarinnar. Nefndin telur að breytingarnar vinni gegn samþykktu skipulagi bæjarins og séu til þess fallnar að festa húsið í sessi.