Vilja að börn læri fjármálalæsi í grunnskóla

Heiðrún Emilía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF.
Heiðrún Emilía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF.

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) lét nýverið gera könnun um fjármálalæsi en samtökin hafa verið að vinna að auknufjármálalæsi í skólum frá árinu 2011 og m.a. unnið að verkefninu Fjármálavit frá árinu 2015. Þá fengu þau  Landsamtök lífeyrissjóða í lið með sér árið 2017.

„Á þessum tíma höfum við keypt um 17.000 bækur um fjármálalæsi og gefið kennurum og nemendum sem þess óska. Þá höfum stutt við þá kennara sem þess óska og verið með heimasíðu,“ segir Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri SFF.

„Við erum fyrst og fremst að horfa til fjármálalæsis ungs fólks, en auðvitað skiptir fjármálalæsi alla máli.“

Heiðrún segir að þegar horft sé til nemenda í dag þá sé umhverfi þeirra sífellt að verða flóknara og hraðara. Auk þess sé mikil samfélagspressa á þennan hóp.

„Við þekkjum það öll hversu auðvelt það er að koma sér í skuldir, freistast til að fá sér yfirdrátt eða smálán, en svo getur verið mun erfiðara að koma sér út úr slíkum skuldum heldur en við ætluðum. Þá er mikilvægt að gera áætlun um hvernig við ætlum að borga slíkt niður,“ útskýrir Heiðrún og bætir við að hraðinn í samfélaginu sé orðinn mun meiri en áður.

Breyttir tímar

„Þegar ég var ung fór maður í útibúið með peninginn sinn og lagði inn i banka, beið í röð, og sama þegar maður tók peninginn út. Þá var einnig mun meira um reiðufé í gangi en í dag. Í dag er hægt að afgreiða margt í gegnum tölvu eða farsíma – og oft er unga fólkið klárara á þessu sviði en þeir sem eldri eru. Þannig getur ungt fólk farið í skuldbindingar án þess að foreldrar viti. Því meira sem unglingar eru upplýstir um fjármál og mikilvægi þess að taka yfirvegaðar ákvarðanir t.d. með áætlanagerð um útgjöld og sparnaðaráformum því meiri líkur eru á að þeir byggju upp heilbrigðan fjárhag,“ segir Heiðrún og bætir við að aukin vitneskja sé líklegri til að þau hafi meira sjálfstraust í fjármálum og þekki sinn rétt, t.d. sem neytendur eða launþegar. Fjármálalæsi felist m.a. í því að kunna að lesa úr launaseðlum.

„Mikilvægi þess að steypa sér ekki í skuldir og gera áætlanir til lengri tíma. Allt er þetta gert til að tryggja heilbrigðari fjárhag.“

Vitundarvakning um fjármálalæsi

Heiðrún segir að fjármálalæsi hafiverið að fá meiri athygli á síðust árum. „Í það minnsta finnum við það hér frá þeim tíma sem við hófum að vinna í þessum málum 2011. En það er sama þróun og í Evrópu. Evrópuþjóðir hafa einnig áhyggjur af fjármálalæsi almennings og er þetta nú skyldufag í nokkrum löndum, t.d. í Danmörku,“ segir Heiðrún en hún vill sjá fjármálalæsi sem hluta af aðalnámskrá í grunnskólum landsins.

„Nú er aðalnámskrá grunnskóla í endurskoðun, en síðast var hún í endurskoðun fyrir 10 árum, þess vegna erum við að vekja sérstaka athygli á málinu. Við getum gefið bækur til nemenda og kennara sem þess óska og veitt þeim kennurum sem þess óska stuðning,“ segir Heiðrún en leggur áherslu á að samtökin hafi eðlilega ekkert með skipulagið eða skólastarf að gera.

Engin fari ólæs á fjármál út í lífið.

Heiðrún segir marga skóla sinna fjármálalæsi afar vel „Framsýnir skólastjórnendur og metnaðarfullir kennarar, við höfum ekki áhyggjur af þeirra nemendum. En við sjáum að í sumum skólum er þetta skyldufag, í öðrum skólum er þetta valfag en það komast ekki allir í valfagið. Í enn öðrum skólum er þetta ekki kennt eða með ómarkvissum hætti. Auðvitað er það svo að það eru ekki allir nemendur sem hafa áhuga á fjármálum og það er vel skiljanlegt, en með því að tryggja að engin börn fari út í lífið eftir grunnskóla án þess að fá grunnþekkingu í fjármálalæsi þá erum við í það minnsta að jafna stöðu barna að þessu leyti.

Í aðalnámskrá er víða minnst á fjármálalæsi, en Heiðrún telur að það sé afar mismunandi hvernig það sé kennt og staða barna sé ekki jöfn. „Það er afleitt að það fari eftir baklandi barna, einstaka kennara eða skólahverfi þeirra hvort þau hafi grundvallarþekkingu á fjármálalæsi. Eina leiðin til að tryggja þessa lágmarksþekkingu er að gera fjármálalæsi að skyldufagi í grunnskóla og kenna með heildsteyptum og skipulögðum hætti,“ segir Heiðrún

Gallup könnuninn sem vísað er til hér að ofan sýnir að einungis 10% aðspurðra, og 11% í yngsta hópnum sögðust hafa fengið fræðslu um peninga og fjármál í grunnskóla. „Við héldum að þetta væri hærra hlutfall. Hluti af skýringu gæti verið að ekki sé kennt með nægjanlega markmissum og skilgreindum hætti, en það er í það minnsta alveg ljóst að þetta er óásættanleg niðurstaða.“

Í könnuninni kemur fram að  89% aðspurðra hefðu vilja læra meira um fjármál í skóla, eingöngu 4% voru ósammála og 7% höfðu ekki á því skoðun, en Heiðrún segir að  þetta sé sama niðurstaða og í sambærilegri könnun samtakanna frá 2021.

10% sögðust hafa lært í grunnskóla en 74% töldu að þeir ættu að læra þetta í grunnskóla. 24% lærðu um fjármál í framhaldsskóla, en 74% töldu að þau ættu að læra í framhaldsskóla.

Af 29 þjóðum var Ísland í 6. sæti er kom að réttu svari í fjármálalæsi í Evrópu, sem eitt og sér kom okkur ánægjulega á óvart. En niðurstaða könnunar vöktu Evrópuríkin af værum svefni og er nú í Evrópu einnig kallað á almenna vitundarvakningu og sum ríki, s.s. Danmörk hafa innleitt fjármálalæsi sem skyldu.

Niðurstaðan á Íslandi var samt ekki sérlega glæsileg, eingöngu 36% voru með 4-5 rétt svör en 19% voru með 0-1 rétt svar. Eingöngu um helmingur áttaði sig á áhrifum vaxta á innistæðu. Þá kom einnig fram skýr greinarmunur á svörum miðað við menntunarstig,“ útskýrir Heiðrún.

Vill jafna stöðu barna

Í könnuninni kemur fram að rétt um helmingur lærir um fjármál hjá foreldrum sínum en Heiðrún veltir fyrir sér þeim börnum sem ekki hafa þann bakgrunn að geta fengið leiðsögn hjá foreldrum sínum, og fá ekki kennslu um fjármál í grunnskóla. Hvort þau komi jafnfætis út úr grunnskólakerfinu þeim börnum sem fá kennslu heima hjá sér og hafa fjármál að skyldufagi í grunnskóla. „Við hleypum ekki börnum út í umferð án þess að kenna þeim umferðarreglur. Það sama gildir hér, við eigum ekki að hleypa börnum út í lífið án þess að kenna þeim grundvallaratriði í fjármálum. Auðvitað er ekki fráleitt að spyrja hvers vegna börn læri  ekki um fjármál hjá foreldrum, en hættan er sú að þau börn sem búa til lakari bakgrunn er snýr að fjármálum á heimilum fari verr undirbúin í að takast á við fjárhagslegar skuldbindingar og standa á sínum rétti, en önnur börn. Það má ekki ráðast af bakgrunni barna og skólahverfum hvort börn fái grundvallarþekkingu í fjármálum eða ekki.“

 Þá kemur einnig fram að um 43% læra um fjármál á samfélagsmiðlum, fjölmiðlum eða netinu, en einungis 13% telja að þau eigi að læra þar. „Það er alveg ljóst að netmiðlar eru misgóðir í að koma fram með gott og uppbyggilegt efni um fjármál. Þar leynast einnig svikasíður og alls konar gylliboð. Það að um 90% vilja læra meira um fjármál í grunnskóla segir alla söguna og þá þörf sem er til staðar,“ segir Heiðrún að lokum.


Athugasemdir

Nýjast