Vikudagur nær til ríflega helmings bæjarbúa í hverjum mánuði
Um þriðjungur Akureyringa les Vikudag vikulega og um fjórðungur nokkrum sinnum í mánuði. Í hverjum mánuði nær blaðið því til ríflega helmings bæjarbúa en Vikudagur er áskriftarblað. Þetta kemur fram í símakönnun á vegum félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri. Könnunin var framkvæmd dagana 9. 16. október sl. og svöruðu henni 506 bæjarbúar. Spurt var hversu oft svarendur notuðu auglýsingablöðin Dagskrána og N4 dagskrá, bæjarblöðin Akureyri vikublað og Vikudag, sjónvarpsstöðina N4 sjónvarp, útvarpsstöðina Plús 987 og vefmiðilinn vikudagur.is.
Þessi konnun á útbreiðslu staðarfjölmiðla á Akureyri bendir til sterkrar stöðu slíkra fjölmiðla í bæjarfélaginu. Mikil eftirspurn virðist vera eftir slíkum miðlum og engar vísbendingar eru um að þessi markaður sé mettaður eða að notkun eins miðils dragi úr notkun annarra. Þvert á móti benda niðurstöðurnar til þess að bæjarbúar búi enn við skort á fjölmiðlun og samkeppni milli einstakra miðla auki aðeins heildarframboðið af eftirsóttum upplýsingum um það sem er að gerast í samfélaginu, segir í fréttatilkynningu. Auglýsingablöðin gegna sem fyrr lykilhlutverki í fjölmiðlun bæjarins en bæjarsjónvarpið og bæjarblöðin hafa einnig mjög sterka stöðu, sérstaklega meðal þeirra sem eru yfir þrítugt. Bæjarútvarpið höfðar hins vegar fyrst og fremst til þeirra sem eru undir þrítugu.
Niðurstöður könnunarinnar sýna afar sterka stöðu auglýsingablaða með sjónvarpsdagskrá, tilkynningar um viðburði, smáauglýsingar og auglýsingar um vöru og þjónustu. Um 92% bæjarbúa nota Dagskrána og 79% nota N4 dagskrá í hverri viku. Konur eru líklegri en karlar til að nota þessa miðla og munar þar átta prósentustigum hjá báðum blöðum. Munurinn á útbreiðslu blaðanna tveggja er minni meðal þeirra sem eru 31-60 ára, búa norðan Glerár eða eru með háskólapróf. Munurinn er meiri meðal þeirra sem kjósa til hægri (A-lista eða D-lista) eða vinstri (S lista eða V-lista) en þeirra sem kjósa framboð fyrir miðju stjórnmálanna (B-lista eða L-lista). Þá er notkun dagskrárblaðanna og sérstaklega N4 dagskrár talsvert meiri meðal þeirra bæjarbúa sem telja sig Akureyringa en hinna sem ekki líta á sig sem slíka. Yfirburðastaða þessara fjölmiðla vekur talsverða athygli enda næsta fátítt í stærri samfélögum með fjölbreytta fjölmiðla að auglýsingablöð án ritstýrðs frétta- eða skemmtiefnis dragi til sín lesendur í slíkum mæli. Þessi mikla útbreiðsla bendir eindregið til þess að íbúar á Akureyri búi við talsverðan skort á fjölmiðlun sem meðal annars kemur fram í mikilli þörf bæjarbúa fyrir auglýsingar og keyptar tilkynningar um viðburði í bænum.
Nýstofnað fríblað, Akureyri vikublað, sem borið er í öll hús í bænum virðist einnig hafa unnið sér traustan sess í fjölmiðlaflóru bæjarins. Ríflega helmingur bæjarbúa les það vikulega og í hverjum mánuði nær það til tveggja þriðju hluta bæjarbúa. Um fjórðungur bæjarbúa les bæði blöðin vikulega og um helmingur mánaðarlega. Hins vegar lesa aðeins 13% hvorugt bæjarblaðið. Þessar niðurstöður virðast benda til þess að akureyrskur fjölmiðlamarkaður beri mjög auðveldlega tvö bæjarblöð þótt þau séu gefin út sama dag í hverri viku, segir í ennfremur í fréttatilkynningu.
Útbreiðsla Akureyrar vikublaðs er hlutfallslega meiri meðal kvenna en karla en 60% kvenna og 53% karla lesa blaðið vikulega. Hins vegar lesa 36% akureyrskra karla en 32% akureyrskra kvenna Vikudag í hverri viku. Bæði blöðin hafa mun meiri útbreiðslu meðal þeirra sem eru eldri en þrítugir en þeirra sem yngri eru, en lesendur Akureyrar vikublaðs eru þó ívið yngri að meðaltali. Lestur bæjarblaðanna eykst nokkuð með meiri menntun og er ekki munur á blöðunum tveimur að því leyti. Lítill munur er á lestri blaðanna eftir bæjarhlutum. Þeir sem telja sig vera Akureyringa eru mun líklegri til að lesa bæjarblöðin. Ekki er mikill munur á lestri blaðanna eftir viðhorfum til stjórnmála en þó má greina ákveðna tilhneigingu til þess að Akureyri vikublað sé meira lesið meðal kjósenda vinstri flokkanna og þeirra sem óánægðir eru með störf L-listans í bæjarstjórn. Akureyri vikublað lesa 56% þeirra sem kjósa til hægri (A-lista eða D-lista) og 54% þeirra sem eru ánægðir með störf L-listans, en 66% þeirra sem kjósa til vinstri (S-lista eða V-lista) eða eru óánægðir með störf meirihlutans. Vikudag lesa hins vegar 37% þeirra sem kjósa til hægri (A-lista eða D-lista) en aðeins 26% þeirra sem kjósa til vinstri (S-lista eða V-lista). Lítill munur er á lestri Vikudags eftir afstöðu til starfa meirihlutans í bæjarstjórn.
Hvað aðra miðla en prentmiðla varðar vekur mjög sterk útkoma N4 sjónvarps sérstaka athygli. Um 70% bæjarbúa horfa á útsendingar stöðvarinnar í hverri viku, þar af horfa um 20% á stöðina á hverjum degi. Aðeins 12% bæjarbúa horfa aldrei á útsendingar N4 sjónvarps. Lítill munur er á áhorfi eftir kyni eða menntun. Hins vegar er mikill munur á áhorfi eftir aldri. Ríflega þrír af hverjum fjórum bæjarbúum yfir þrítugt horfa á N4 sjónvarp vikulega eða oftar en aðeins þriðjungur þeirra sem eru á aldrinum 1830 ára. Áhorfið er nokkru meira meðal þeirra bæjarbúa sem líta á sig sem Akureyringa. Engu að síður horfa 62% þeirra sem ekki líta þannig á sig á stöðina vikulega eða oftar. Einnig er áhorfið nokkru minna meðal kjósenda vinstri flokkanna (S-lista eða V-lista) eða 63% í hverri viku á móti 73% þeirra sem kjósa framboð fyrir miðju (B-lista eða L-lista) og 77% þeirra sem kjósa til hægri (A-lista eða D-lista).
Útvarpsstöðin Plús 987 er eina útvarpsstöðin með svæðisbundnar útsendingar á Akureyri en hlustun á hana virðist vera mjög aldursbundin. Um 14% allra svarenda hlusta á stöðina í hverri viku og þar af hlusta 3% daglega. Í aldurshópnum 1830 ára hlusta hins vegar 42% vikulega og 14% hlusta á útvarpsstöðina á hverjum degi. Útvarpsstöðin Plús 987 nær því til mun fleiri bæjarbúa á þessum aldri en bæði bæjarblöðin og N4 sjónvarp. Karlar eru ívíð líklegri en konur til að hlusta á útvarpsstöðina en ekki er munur eftir menntun eða bæjarhlutum. Þeir sem kjósa framboð fyrir miðju stjórnmálanna (B-lista eða L-lista) eða eru ánægðir eða hlutlausir gagnvart störfum L-listans eru líklegri til að hlusta á Plús 987.
Útkoma netmiðilsins vikudagur.is kemur nokkuð á óvart í þessari könnun. Netmiðillinn er stöðugt uppfærður og getur þannig flutt glænýjar fréttir á hverjum degi meðan akureyrskir prentmiðlar koma aðeins út einu sinni í viku. Hann er jafnframt ókeypis og aðgengilegur hvar sem netsamband er fyrir hendi. Í því ljósi vekur athygli að aðeins 6% bæjarbúa skuli nota hann daglega og aðeins fjórðungur vikulega eða oftar. Ekki er mikill kynjamunur á notkun miðilsins en aldurmunurinn er hins vegar umtalsverður. Þannig lesa 36% bæjarbúa á aldrinum 3160 ára vefmiðilinn í hverri viku en aðeins 5% þeirra sem eru 1830 ára og 13% þeirra sem eru eldri en sextugir. Hér kann kynslóðamunur í áhuga á bæjarmálefnum annars vegar og notkun fjölmiðlatækni hins vegar að skýra niðurstöðuna að nokkru leyti. Jafnframt eru þeir sem álíta sig Akureyringa líklegri til að lesa vikudagur.is Aðeins 13% kjósenda vinstri flokkanna (S-lista og V-lista) lesa vefmiðlinn en 29% kjósenda annarra flokka. Hins vegar er ekki skýrt samband milli afstöðu til starfa L-listans og lesturs á vefmiðlinum vikudagur.is.