Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag, fimmtudaginn 17. september og farið er víðan völl í blaðinu.

Meðal efnis:

*Niðurgreiðsla á innanlandsflugi undir heitinu Loftbrú fyrir fólk með fasta búsetu á landsbyggðinni tók gildi núna í september. Fyrirmyndin er hin svokallaða skoska leið og nemur niðurgreiðslan 40% af fargjaldinu.Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi, hefur barist lengi fyrir niðurgreiðslu á innanlandsflugi en hann ræddi þetta fyrst í bæjarstjórn Akureyrar á sínum tíma. Í samtali við Vikublaðið segir Njáll Trausti að þetta sé stór áfangi.

*Húsnæði fyrir tómstunda- og frístundarstarf barna og fullorðinna á Húsavík hefur árum saman verið í umræðunni, bæði í almannarýminu og inni í ráðum og nefndum sveitarfélagsins Norðurþings. Sitt sýnist hverjum en eitt virðist flestum bera saman um, jafnt sveitarstjórnarfólki sem og notendum þjónustunnar og aðstandendum þeirra; en það er að húsnæðiskosti þessa málaflokks sé ábótavant. Egill Páll Egilsson blaðamaður kafar ofan í málið.

*Vaiva Straukaite hefur umsjón með Matarhorninu þessa vikuna en hún er grafískur hönnuður og eigandi litlu hönnunarstofunnar Studio Vast. Þá er hún einnig lærður matartæknir.

*Steinunn María Sveinsdóttir, safnstjóri Flugsafns Íslands, heldur um Áskorendapennan og Inga Dagný Eydal skrifar haustbréf til lesenda.

*Meirihluti forsvarsmanna ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi telja að fyrirtæki þeirra muni komast í gegnum þá erfiðleika sem Covid-19 faraldurinn hefur orsakað. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Markaðsstofa Norðurlands stóð fyrir í ágúst. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir í samtali við Vikublaðið að ferðasumarið á Norðurlandi hafi gengið vonum framar en veturinn sé óráðinn.

*Fulltrúar Þekkingarnets Þingeyinga (ÞÞ) mættu á fund byggðarráðs Norðurþings á dögunum og kynntu hugmyndir um uppbyggingu frumkvöðlaseturs á Húsavík. Hugmyndirnar miða að því að auka samstarf stofnana og fyrirtækja í héraðinu.


Athugasemdir

Nýjast