Vigdís Finnbogadóttir heiðursgestur á útskrift HA

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Frú Vigdís Finnbogadóttir verður heiðursgestur á brautskráningu Háskólans á Akureyri á laugardaginn 13. júní. Í tilkynningu frá HA segir að skólinn fagni því að Vigdís sæki Háskólann á Akureyri heim á þessu afmælisári 100 ára kosningaréttar kvenna. Athöfnin fer fram í húsakynnum skólans og er það í annað sinn sem það er gert.

Háskólinn á Akureyri mun útskrifa 322 nemendur á laugardaginn og verður brautskráningin í fyrsta sinn í sögu skólans í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni N4 og hefst kl. 11:00. Með þessu gefst tækifæri fyrir alla að horfa á ávarp frú Vigdísar ásamt annarri dagskrá brautskráningar í beinni sjónvarpsútsendingu eða á vef N4.

Brautskráningin er söguleg þar sem konur munu gegna hlutverki sviðsforsetanna þriggja en slíkt hefur ekki gerst áður. Þetta eru þær Árún K. Sigurðardóttir fyrir heilbrigðisvísindasvið, Sigrún Stefánsdóttir fyrir hug- og félagsvísindasvið og Rannveig Björnsdóttir staðgengill Ögmundar Knútssonar fyrir viðskipta- og raunvísindasvið. Þetta er fyrsta brautskráning í rektorstíð Eyjólfs Guðmundssonar. 

Þann 19. júní mun háskólasamfélagið á Akureyri minnast þess að 100 ár eru liðin frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt. Á Akureyri verður skipulögð dagskrá í tilefni dagsins þar sem dr. Sigrún Stefánsdóttir, staðgengill rektors og forseti hug- og félagsvísindasviðs, mun flytja ávarp. Allir starfsmenn Háskólans á Akureyri fá frí í tilefni dagsins og eru sérstaklega hvattir til að taka þátt í hátíðarhöldunum sem hefjast kl. 13 í Lystagarðinum.

Nýjast