Til að tryggja að farið verði vel eftir viðmiðunarreglum og reglugerðum kom Becromal strax á stöðugu eftirliti með frárennslisvatni áður en því er hleypt inn í holræsakerfið. Til að koma í veg fyrir mannleg mistök í framtíðinni hefur þetta eftirlitskerfi nú verið uppfært yfir í afar fullkomið sjálfvirkt greiningar- og öryggiskerfi sem verður að fullu komið í gagnið í júní. Becromal hefur unnið með Verkfræðistofunni EFLU við að koma þessu kerfi á en hún hefur m.a. sérhæft sig á sviði umhverfismála. Áframhaldandi eftirlit með framleiðslu og kerfum er snúa að losun úrgangsefna er í höndum umhverfisfulltrúa Becromal. Einnig hefur fyrirkomulagi við skýrslugerð og tilkynningar verið breytt og regluleg samskipti við yfirvöld verða aukin.
Fráfarandi verksmiðjustjóri hefur viðurkennt ábyrgð á því að hafa ekki fylgt kröfum og reglugerð nægilega vel eftir. Hann hefur nú hætt störfum fyrir verksmiðju Becromal Iceland. Með þessum aðgerðum undirstrikar Becromal Group þá miklu áherslu sem fyrirtækið leggur á umhverfisvernd. „Við gerum allt sem er tæknilega og efnahagslega mögulegt til að vernda umhverfið og til að mæta réttmætum kröfum Íslendinga þar að lútandi, sem og starfsmanna okkar og viðskiptavina," segir Luciano Lolli, forstjóri Becromal Group og stjórnarmaður Becromal Iceland, í fréttatilkynningu en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Mílanó á Ítalíu. Lolli heimsækir sjálfur verksmiðju Becromal á Íslandi reglulega og hefur yfirumsjón með því að starfsemi fyrirtækisins verði bætt á hraðan og áreiðanlegan hátt. „Sem stór atvinnurekandi á svæðinu viljum við endurheimta það traust sem fólk og yfirvöld báru til okkar og styrkja þannig grunninn að árangursríku samstarfi á Íslandi."