MP banki gerði tilboð í nærfellt allt hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf. í mai og gekk tilskilinn meirihluti eigenda Íslenskra verðbréfa að skilmálum tilboðsins. Tilboðið var liður í útvíkkun á þjónustu MP banka á sviði eignastýringar. Í tilkynningu um slit viðræðna, segir að breyttar forsendur og mismunandi áherslur hafi leitt til þess að aðilar hafa sameiginlega komist að samkomulagi um að hverfa frá viðskiptum þessum.
Íslensk verðbréf eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem sinnir viðskiptavinum um allt land. Félagið var stofnað árið 1987 og starfsmenn félagsins eru 20 talsins. Viðskiptavinir Íslenskra verðbréfa eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, tryggingarfélög, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar.
Ég er ánægður með að niðurstaða sé komin í þetta mál. Íslensk verðbréf eru með traustan hóp viðskiptavina og starfsfólk okkar mun hér eftir sem hingað til leggja höfuðáherslu á að veita framúrskarandi þjónustu á sviði eignastýringar. Ávöxtun eignasafna í umsjá Íslenskra verðbréfa var með besta móti á síðastliðnu ári og rekstur félagsins gekk vel. segir Sveinn Torfi Pálsson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa í tilkynningu og fagnar því að niðurstaða sé komin í málið.