Við verðum að snúa bökum saman og byggja upp traust

Fjöldi fólks tók hátt í hátíðarhöldum á Akureyri í dag, 1. maí. Farið var í kröfugöngu, við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar, frá Alþýðuhúsinu að Hofi, þar sem hátíðardagskráin fór fram. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, flutti aðalræðu dagsins en það var Hákon Hákonarson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri sem flutti ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna.  

"Góðir tilheyrendur.

Fiskum, ræktum, byggjum bæ,
bræður eftir föngum.
Fögnum saman fyrsta maí,
fram til sigurs göngum.

Enn á ný er kominn 1. maí og launamenn um allan heim koma saman og fagna unnum sigrum verkalýðshreyfingarinnar á liðnum áratugum. Við finnum þennan mikla styrk samtaka launafólks víðsvegar um heim streyma yfir lönd og höf. Við Íslendingarnir erum stoltir af veru okkar í samfélagi þjóðanna og höfum náð langt í að byggja upp fyrirmyndar samfélag enda erum við rík og heilsuhraust þjóð í samanburði við aðrar. Hér á enginn að þurfa að líða skort.

En nú um stundir eigum við Íslendingar í tímabundnum erfileikum sem við komum okkur í sjálf, eða öllu heldur það gerði örlítið brot þjóðarinnar. Við munum vinna okkur út úr þessum mikla tímabundna vanda, á því er enginn vafi. Til að svo geti orðið sem allra fyrst verðum við öll sem eitt að snúa bökum saman og einhenda okkur í að endurreisa samfélagið, byggja upp öfluga og réttláta framfararsókn til lands og sjávar. Við verðum að setja börnin okkar og barnabörn í forgang. Þau treysta á okkur fullorðna fólkið og undir því trausti verðum við að standa. Það er með öllu ólíðandi og til skammar ef börn þurfa að búa við sult og ofbeldi á Íslandi. Slíkt er þjóðarskömm sem við verðum öll að ráðast gegn af fullum krafti.

Launþegahreyfingin hefur ávallt látið málefni aldraðra og sjúkra til sín taka. Þar þurfum við að standa vaktina sem aldrei fyrr. Enginn vafi er á því að við Íslendingar munum vinna okkur út úr þessum vanda sem nú herjar á okkur. Við erum vel menntuð og hugrökk þjóð, eigum miklar auðlindir, svo miklar að aðrar þjóðir öfunda okkur af. Nefna má  fiskiveiðiheimildirnar sem eru eign þjóðarinnar, landbúnaðarframleiðsluna sem er einhver sú allra besta í heimi, orkuna í fallvötnum og í iðrum jarðar, kalda vatnið, hreina loftið og svo landið sjálft með öllum sínum mögnuðu og einstöku kostum. Hér á enginn að þurfa að líða skort. Nei okkur Íslendinga skortir ekkert til að halda áfram uppbyggingu okkar magnaða samfélags þrátt fyrir tímabundna efnahagserfiðleika sem þó má alls ekki gera lítið úr og brenna nú mjög á mörgum fjölskyldum.

Eitt það versta sem við er að eiga er reiði og vantraust, jafnvel hatur milli manna. Orð eru látin falla um menn og málefni sem ekki eru til þess fallin að hvetja til samstöðu ólíkra afla, þvert á móti kynda þau undir sundrungu meðal þjóðarinnar. Þessu ástandi verður að linna. Við verðum að snúa bökum saman og byggja upp traust. Við verðum að kalla fram það besta í fari hvers annars og treysta hvort öðru og vinna saman. Við verðum að trúa á framtíðina og stuðla með öllum tiltækum ráðum að mannlegri reisn.

Stéttarfélögin eru okkar öflugasta brjóstvörn og sá vettvangur sem stendur okkur næst. Þau starfa þvert á öll stjórnmálaöfl og trúfélög spyrja ekki um sýslumörk eða landamæri. Við höfum hreinlega ekki efni á að bíða lengur, við verðum að stappa stálinu hvert í annað, spyrjum ekki hvað getur stéttarfélagið mitt gert fyrir mig spyrjum frekar hvað get ég gert til að styrkja stéttarfélagið mitt. En til þess að takast megi að endurvekja tiltrúna á náungan og eyða reiðinni verða stjórnvöld og fyrirtæki að koma þannig fram að fólkið trúi því að eitthvað raunverulega gott sé framundan og hinn almenni launamaður sjái tilgang í því að taka þátt í endurreisninni, hver og einn einasti einn. Með viljann að vopni og bjartsýnina að leiðarljós mun þetta takast.

Höfum það einnig hugfast að Íslandi má aldrei og verður aldrei til langframa stjórnað í andstöðu við samtök launafólks í þessu landi."

Nýjast