Vetrarleikarnir hófust í dag
Íslensku vetrarleikarnir hófust á Akureyri í dag en þeir verða með öðru og stærra sniði en á síðasta ári. Éljagangshátíð Akureyringa hefur nú verið sameinuð Íslensku vetrarleikunum og stendur hátíðin yfir frá 6.-14. mars. Segja má að flautað hafi verið til leiks í dag þegar lokið var við smíði landsins stærsta snjókarls en hann stendur á flötinni fyrir framan Samkomuhúsið þar sem Lísa í Undralandi ræður ríkjum um þessar mundir.
Alls kyns viðburðir sem tengjast vetaríþróttum og vetrarferðamennsku verða á dagskránni alla næstu daga og smám saman æsast leikar þar til hápunkti hátíðarinnar er náð dagana 12.-14. mars. Þá kemur til bæjarins fólk sem hefur gert garðinn frægan um víða veröld fyrir frábæra leikni á snjóbrettum og hinu svokallaða freeski en þá renna menn sér á sérstökum skíðum sem eru þeirrar gerðar að engu máli skiptir hvort menn renna sér aftur á bak eða áfram, þau eru sveigð upp á báðum endum. Um 50 erlendir þátttakendur eru skráðir til leiks.
Af öðrum viðburðum má nefna vasaljósagöngu í Hlíðarfjalli, vélsleðaprjónkeppni við Glerártorg, Bautatölt í Skautahöllinni, brettakeppni á Ráðhústorgi, þyrluskíðaferðir og fleira og fleira.