Verslunar- og viðskiptasaga Akureyrar

Stjórn verkefnisins ásamt Halldóri Jóhannssyni framkvæmdastjóra KEA sem styrkir verkefnið.
Stjórn verkefnisins ásamt Halldóri Jóhannssyni framkvæmdastjóra KEA sem styrkir verkefnið.

Stofnað hefur verið verkefni um ritun sögu verslunar og viðskipta á Akureyri frá upphafi til okkar daga. Markmiðið er að gefa út vandaða og ítarlega bók um efnið árið 2017. Stefnt er að því að bókin verði 400 til 500 síður með ítarlegum texta um efnið og fjölbreyttu myndefni. Verkefnið felst í að rannsaka og rita rækilega sögu verslunar og viðskipta á Akureyri (og Gásum) frá miðöldum til ársloka 2015.

Lengst af voru flestar stærri verslanir í eigu Dana en með tilkomu Gránufélagsins og Kaupfélags Eyfirðinga, auk margra íslenskra kaupmanna, efldist Akureyri gríðarlega sem miðstöð verslunar og við-skipta á Norðurlandi og í framhaldi af því sem útgerðar- og iðnaðarbær.

„Hingað til hefur þessi merkilega saga ekki verið rituð eða sögð í heild. Með verkefninu er markmiðið að bæta úr því enda ekki seinna vænna að gera henni verðug skil.  Ennfremur ýtir á eftir að enn er lifandi fólk sem man ótal margt um vinnubrögð og aðstæður í  þessari atvinnugrein frá veröld sem var. Ef ekkert er að gert til að festa þá vitneskju í letur fellur hún í gleymskunnar dá og komandi kynslóðum gefst ekki tækifæri að kynnast þessum merka þætti í sögu bæjarins og þjóðarinnar. Samningar eru þegar hafnir við dr. Jón Þ. Þór sagnfræðing og prófessor í þeirri grein um upplýsingaöflun, söfnun mynda og ritun bókarinnar.

Stefnt er að því að hann skili áföngum við ritunina til verkefnisstjórnar á þriggja mánaða fresti. Hún kemur með ábendingar við höfundinn ef þurfa þykir. Jón Þ. Þór tekur þó endanlegar ákvarðanir enda verður hann skráður höf-undur bókarinnar. Hann hefur samið mörg þekkt rit á þessu fræðasviði. Verkefnisstjórn aflar tekna til verksins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess í nánu samstarfi við löggiltan endurskoðanda sem gengur frá öllum upp-gjörum. Leitað verður til samtaka, fyrirtækja og einstaklinga um fjárhags-legan stuðning við verkefni þetta. Þau viðbrögð munu ráða úrslitum um hvort unnt verður að koma þessu metnaðarfulla verkefni heilu í höfn,“ segir í tilkynningu.

Aðstendur verkefnisins hafa ráðið stjórn en hana skipa Ingólfur Sverrisson, formaður verkefnisstjórnar, Sigurður Jóhannesson fyrrum aðalfulltrúi KEA, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir fyrrum formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og Ragnar Sverrisson formaður Kaupmannafélags Akureyrar.

Nýjast