Verkalýðshreyfingin að vígbúast
Miðað við harkaleg viðbrögð vinnuveitenda vegna komandi kjarasamninga er hugsanlegt að grípa þurfi til aðgerða, gangi hvorki né reki í kjaraviðræðum. Því hefur Eining-Iðja, stéttarfélag í Eyjafirði, skipað verkfallsstjórn sem ætlað er það hlutverk að koma með tillögur um aðgerðir. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins, ritar í Vikudag sem kemur út í dag.
Meirihluti félagsfólks í Einingu-Iðju styður hugsanlegar verkfallsaðgerðir, samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir félagið. Eining-Iðja er innan banda Starfsgreinasambandsins, sem fer fram á að miða krónutöluhækkanir við að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Einnig að launatöflur verði endurskoðaðar þannig að starfsreynsla og menntun verði metin til launa, vaktaálag verði endurskoðað, desember- og orlofsuppbætur hækki, lágmarksbónus verði tryggður í fiskvinnslu og ný starfsheiti skilgreind í launatöflu.
Eining-Iðja er stærsta stéttarfélagið í Eyjafirði með um 7.300 félagsmenn og starfa margir þeirra í stærstu fyrirtækjunum á Akureyri og nágrenni. Því er ljóst að ef til verkfalls kemur hefði það víðtækar afleiðingar fyrir atvinnulífið á svæðinu.
-þev