Verkakona eða húsmóðir – Konur í iðnaði á Akureyri

Háskólasvæðið á Sólborg. Mynd: Hörður Geirsson.
Háskólasvæðið á Sólborg. Mynd: Hörður Geirsson.

Andrea Hjálmsdóttir heldur fyrirlestur á félagsvísindatorgi í Háskólanum á Akureyri í dag, miðvikudag kl. 12.00, í stofu 102 en yfirskriftin er: Verkakona eða húsmóðir – Konur í iðnaði á Akureyri. Íslenskar konur hafa löngum verið afar virkar á vinnumarkaði þótt þær hafi jafnframt vinnu utan heimilis þurft að sjá um flest störf innan þess að auki. Framlegð kvenna á vinnumarkaði virðist oftar en ekki illsjáanleg. Við uppbyggingu og viðhald iðnaðar á Akureyri verður vinnuframlag kvenna þó seint ofmetið, fremur en vinnuframlag kvenna almennt fram eftir tuttugustu öldinni. Í rannsókn Andreu Hjálmsdóttur á kjörum kvenna í dag bentir margt til þess að lítið hafi breyst þegar að vinnuálagi kvenna kemur bæði utan heimilis sem innan.

Rannsókn Andreu byggir á viðtölum við sex konur. Heimilisaðstæður þeirra voru á margan hátt ólíkar; giftar með börn, einhleypar með börn eða einhleypar og barnlausar, en frásagnir þeirra slá sameiginlegan tón. Tón sem bergmálar í aðstæðum kvenna, á vinnumarkaði og heimili, í samtímanum.Rannsóknargögnin gáfu ótvírætt til kynna að seinni vakt kvenna á Verksmiðjunum (en konur með fjölskyldu unnu gjarnan á kvöldvöktum) endurspegli ‘seinni vakt’ kvenna enn í dag. Ennfremur kom fram, í máli kvennanna, að í samræmi við væntingar og orðræðu um miðja síðustu öld tengdist sjálfsmynd verksmiðjukvennanna fremur heimilinu en vinnunni. Í rannsókninni varpa konur í fortíð á margan hátt spegli á konur í nútíð.

Andrea Hjálmsdóttir er lektor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Hún lauk MA prófi í félagsfræði, með áherslu á kynjafræði, frá University of British Columbia haustið 2009. Hún hefur einkum unnið að rannsóknum á viðhorfum og lífstíl unglinga auk þess að vinna nú að rannsókn á reynslu kvenna sem unnu á Verkmiðjunum á Akureyri eftir miðja síðustu öld.

 

Nýjast