Verður reist stytta af Tinna við Torfunefsbryggju?

Á síðasta fundi stjórnar Akureyrarstofu var rætt um þá hugmynd að reisa styttu af teiknimyndapersónunni Tinna og hundinum hans Tobba á Torfunesbryggju. Sem kunnugt er kom blaðamaðurinn Tinni við á Akureyri í sögunni um Dularfullu stjörnuna.

Í fundargerð Akureyrarstofu segir að fram hafi komið sú hugmynd að reisa styttu af Tinna og félögum við Torfunefsbryggju, í samstarfi við Hafnasamlag Norðurlands, til minningar um þessa heimsókn.

„Stjórn Akureyrarstofu er spennt fyrir því að stytta af Tinna og félögum rísi á Torfunefsbryggju og felur starfsmönnum til að byrja með að kanna hvaða formlegu leiðir þarf að fara gagnvart höfundarrétti og senda formlegt erindi til stjórnar hafnasamlagsins,“ segir í fundargerðinni.

Í sögunni um Dularfulla stjörnuna kemur skip Tinna og félaga við á Akureyri til að taka eldsneyti og fara fjórar blaðsíður í sögunni um dvöl þeirra í bænum.

Tinni og Kolbeinn kafteinn ganga frá borði við bryggjuna á Akureyri.

 


Athugasemdir

Nýjast