Verður Eyjafjarðará virkjuð?

Forráðamenn Eyjafjarðarsveitar höfðu af því spurnir nýlega að hafnar væru talsverðar framkvæmdir við bæinn Tjarnir sem er innst í Eyjafjarðarsveit. Settu einhverjir þessar framkvæmdir strax í samhengi við vilja Aðalsteins Bjarnasonar, eiganda Tjarna, um að hefja virkjanaframkvæmdir í Eyjafjarðará, en Aðalsteinn virkjaði einmitt í Djúpadalsá í Eyjafjarðarsveit fyrir nokkrum árum. Bjarni Kristjánson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, sagði í samtali við Vikudag að engin leyfi fyrir neinum virkjunarframkvæmdum í Eyjafjarðarsveit hafi verið gefin út og sagði hann að vandlega yrði fylgst með því að framkvæmdir nærri bænum Tjörnum tengdust á engan hátt Eyjafjarðará. Í framhaldinu var Aðalsteinn kallaður á fund sveitarstjóra og í framhaldi af þeim fundi sendi Aðalsteinn eftirfarandi upplýsingar til sveitarstjórans sem Vikudagur hefur undir höndum:

„Ég er að grafa skurð sem á að veita Gleránni norður fyrir bæinn. Ég ætla mér að rækta allt land umhverfis bæinn í vor og þess vegna vil ég vera búinn að gera þennan skurð. Hugsanlega verður hann nýttur í framtíðinni sem aðrennslisskurður fyrir virkjun en það er ekki meiningin að láta Eyjafjarðarána renna eftir skurðinum og það munu engin seyði komast inn í hann. Einnig er ætlunin að útbúa litla tjörn suður undir Gleráreyrum og aðra hér norðan við bæinn. Á Gleráreyrunum ætla ég mér að taka efni til vegagerðar og er ég búinn að moka upp nokkru efni þar. Ég ætla mér að stunda hér virkjanaframkvæmdir en þetta er ekki hluti af þeim og ég mun ekki fara í neinar leyfisskyldar virkjanir nema leyfi fáist fyrir þeim að sjálfsögðu. Ég mun fljótlega kynna fyrir ykkur litla rennslisvirkjun sem er á teikniborðinu og á að vera staðsett fram í Brúsahvammi," sagði Aðalsteinn í bréfi sínu.

Nýjast