Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja, á fundi sem haldinn var á Akureyri fyrir helgi. Þar gerði hann m.a. grein fyrir rekstri fyrirtækisins og hvaða áhrif það hefði á samfélagið hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Starfsmenn Samherja á Íslandi eru 600 og eru 70% þeirra búsettir á Eyjafjarðarsvæðinu. Á skrifstofu Samherja á Akureyri starfa 35 manns og sagði Þorsteinn Már að helmingur þeirra starfa sé til komin vegna starfsemi fyrirtækisins erlendis. "Þá höfum við haft eina reglu frá því að við fórum að starfa erlendis, sem er sú að það eru Íslendingar sem stjórna öllum okkar fyrirtækjum og skipum erlendis."
Til að sýna umfang Samherja hér svæðinu, nefndi Þorsteinn Már, að fyrirtækið hefði greitt 74 fyrirtækjum á Akureyri fyrir þjónustu í febrúar sl., samtals 133 milljónir króna. Þá greiddi Samherji 21 fyrirtæki á Dalvík samtals 24 milljónir króna í síðasta mánuði. Einnig greiddi fyrirtækið 282 milljónir króna í laun. Fyrirtækið keypti þjónustu á Akureyri á síðasta ári fyrir 1.340 milljónir króna af rúmlega 200 fyrirtækjum. Alls greiddi Samherji 5.000 milljónir króna á síðasta ári til starfsmanna, fyrirtækja og félaga í Eyjafirði. Þar af eru laun 3,2 milljarðar, kaup á vöru og þjónustu 1.730 milljónir og styrkir 70 milljónir króna. "Þannig að við, sem oftast er talað um sem þiggjendur, erum að koma með um 5.000 milljónir króna inn á Eyjafjarðarsvæðið. Fyrirtækið Samherji er því að skapa ýmislegt hér á þessu svæði," sagði Þorsteinn Már.
Hann sagði að Samherji hefði lagt sitt af mörkum til að draga verkefni inn á svæðið í gegnum árin. Fyrirtækið hefur komið að endurskipulagningu og endurreisn fyrirtækja og nefndi sem dæmi Kælismiðjuna Frost og Slippinn Akureyri en Samherji er hluthafi í báðum fyrirtækjunum. Þorsteinn Már sagði að sjávarútvegur við Eyjafjörð væri þýðingarmikil grein og hefði einnig áhrif á aðrar starfsgreinar. Hann sagði að tilfærsla aflaheimilda hefði áhrif á starfsemina í Eyjafirði. Nauðsynlegt væri að búa við stöðugleika, svo hægt væri að ráðast í fjárfestingar, auk þess sem þjóna þyrfti viðskiptavinum með afhendingaröryggi.
"Það eru erfiðir tímar á Íslandi í dag og mikið gengur á. Það er von mín að það sem okkur hefur tekist að byggja upp á Dalvík, með stöðugleika í hráefnisöflun í áratug, verði ekki öllu kastað burt með illa ígrunduðum breytingum á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins í landinu. Það er allt of mikið í húfi til þess að við getum leyft okkur slíkt verklag. Sjávarútvegur og fiskvinnsla munu eiga stóran þátt í að skapa okkur gjaldeyri í framtíðinni og vinna þannig þjóðina út úr þeim ólgusjó sem hún siglir í um þessar mundir. Mikilvægasta verkefni Íslendinga næstu mánuði er fyrst og fremst að vinna áfram saman af krafti, dugnaði og þrautseigju," sagði Þorsteinn Már.