Ég tel víst að Samtök atvinnulífsins verji launastefnu sína af mikilli hörku á væntanlegum samningafundum, þess vegna er mikilvægt að heyra hljóðið í félagsmönnum. Það er öllum samninganefndum mikilvægt að hafa traust og öflugt bakland, segir Guðmundur Ragnarsson formaður VM Félags vélstjóra og málmtæknumanna en félagið efnir í dag til fundar á Akureyri, þar sem kjaramálin er á dagskránni.
Fyrr í sumar felldu félagsmenn í VM kjarasamning félagsins við vinnuveitendur og eru kjaraviðræður því að hefjast á nýjan leik.
Ég held að samningurinn hafi verið felldur vegna þess að félagsmenn hafi hafi almennt verið óánægðir með launaþróunartrygginguna og lág dagvinnulaun. Þessi sjónarmið komu skýrt fram á fundum sem haldnir voru í tengslum við atkvæðagreiðsluna um kjarasamninginn. Sömuleiðis eru margir gríðarlega ósáttir við þá staðreynd að samningsrétturinn var í raun og veru tekinn af sjálfstæðum stéttarfélögum eins og VM. Lágmarkslaun á Íslandi eru allt of lág, um það eru allir sammála. En það verður líka að vera ákveðið launabil og það verður ekki ákveðið með valdi, eins og gert var fyrr á þessu ári, segir Guðmundur Ragnarsson formaður VM.
Fundurinn á Akureyri verður haldinn að Skipagötu 14, sal Einingar-Iðju á 2.hæð, miðvikudaginn 12. ágúst og hefst hann klukkan 17:30.