Velheppnuð tónleikaröð á Langanesströnd

Myndir tók Hilma Steinarsdóttir.
Myndir tók Hilma Steinarsdóttir.

Menningararfi Langanesstrandar var svo sannarlega gert hátt undir höfði þetta síðsumar með fimm kvölda tónleikaröð sem bar nafnið ‚Stofutónleikar á Bjarmalandi‘.

Tilgangur verkefnisins, að sögn Bakkfirðingsins Hilmu Steinarsdóttur, var að eiga saman notalega stund og hlusta á falleg lög og túlkun á kvæðum Kristjáns frá Djúpalæk, minnast hans og fólksins sem bjó á Djúpalæk og á Bjarmalandi, og vekja athygli á þessu svæði, Langanesströnd við Bakkafjörð. Bjarmaland stendur við hliðina á Djúpalæk á Langanesströnd, þar sem Kristján fæddist og ólst upp, bærinn sem hann kenndi sig við alla tíð. Stórfjölskylda Kristjáns á þarna afdrep enn í dag og óhætt að segja að andi hans hafi verið með þeim tónleikagestum sem lögðu leið sína í gömlu stofuna á Bjarmalandi.

Tónlistarfólkið Kristín og Jonni fluttu frumsamin lög við valin kvæði Kristjáns, af stakri virðingu fyrir verkum hans og þeim tilfinningum og þeirri mannúð sem fram kemur í kvæðunum. Að sögn skipuleggjenda mættu yfir hundrað gestir í það heila og kom fólk alls staðar að úr landshlutanum til að minnast skáldsins með þessum hætti. Að tónleikum loknum bauð Hilma gestum upp á kaffi og með því að íslenskum sveitasið. Verkefnið hlaut styrk frá Betri Bakkafirði og verður vonandi framhald á í einhverri mynd, enda af nógu að taka þegar kemur að skáldum og þeim ljóðarfi sem á rætur sínar í svæðið.

 


Athugasemdir

Nýjast