15. febrúar, 2007 - 14:19
Fréttir
Forsvarsmenn Vélavers hf. og Hörgárbyggðar skrifuðu fyrir stundu undir samning um kaup Vélavers á eins hektara lóð undir þjónustumiðstöð fyrir Norðurland, á byggingasvæði norðan við Lónsbakka. Starfsemi Vélavers er nú við Glerártorg en til stendur að byggja mun stærra húsnæði undir starfsemina í Hörgárbyggð. Um er að ræða 12 hektara byggingasvæði, austan við þjóðveg 1 og norðan við afleggjarann að Pétursborg, sem ráðgert er að verði tilbúið í ágúst nk. Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri Hörgárbyggðar sagði að töluverður áhugi væri fyrir lóðum á svæðinu undir verslun og þjónustu og því væri líklegt að svæðið byggðist upp á skömmum tíma. Vélaver hefur þegar selt húsnæði sitt við Glerártorg og þarf að skila því í síðasta lagi 1. september 2008. Magnús Ingþórsson forstjóri Vélavers sagði ráðgert að byggja 600-800 fermetra hús á lóðinni, sem væri um helmings stækkun miðað við núverandi húsnæði. Starfsemi fyrirtækisins hefur vaxið og dafnað og Magnús sagðist trúa því að á Norðurlandi yrði ráðist í næstu stórframkvæmdir og nefndi í því sambandi Vaðlaheiðargöng og álver á Húsavík.
Í hinu nýja húsnæði er gert ráð fyrir að verði stórt þjónustuverkstæði fyrir atvinnubifreiðar, landbúnaðarvélar, vinnuvélar og önnur þau tæki sem Vélaver selur og þjónustar á Norðurlandi. Einnig verður þar varahlutalager og sýningaraðstaða. Guðmundur sveitarstjóri og Magnús forstjóri skrifuðu undir samninginn, ásamt þeim Helga Steinssyni oddvita og Jónasi Þór Jónassyni forstöðumanni Vélavers á Akureyri.