Hvalaskoðunarvertíðin á Húsavík 2016 hófst formlega klukkan 11 í morgun þegar Náttfari, sem er í eigu Norðursiglingar sigldi úr höfn með um það bil 35 farþega um borð. Gestirnir sem komu meðal annars frá Bandaríkjunum, Malasíu og Þýskalandi fengu blíðuveður til að njóta dagsins á Skjálfandaflóa.
Hér eftir verða daglegar hvalaskoðunarferðir frá Húsavíkurhöfn og oft margar á dag, fram til 1. desember. Ljóst er að Húsavík fer vaxandi í hlutverki sínu sem Hvalahöfuðborg Íslands, meðal annars með tilkomu nýrrar steypireiðarsýningar í Hvalasafninu sem og öflugu rannsóknarstarfi Háskólasetursins sem unnið er í samvinnu við fyrirtækin á svæðinu. js /HH/visithusavik.is