Veitingastaðnum Friðriki V á Akureyri lokað

„Við sáum ekki fram á að rekstur af þessu tagi gæti staðið undir sér og tókum því þá ábyrgu afstöðu að hætta starfsemi á þessum tímapunkti," segir Friðrik Valur Karlsson veitingamaður á Friðrik V. við Kaupvangsstræti á Akureyri.  Ákvörðunin var tilkynnt á fundi starfsmanna í gærkvöld.   

Friðrik og eiginkona hans Arnrún Magnúsdóttir hafa rekið veitingastaðinn um árabil, fyrst við Strandgötu en síðustu ár í endurgerðu iðnaðarhúsnæði í Gilinu. Friðrik segir að fyrirtækið sé ekki komið í þá stöðu að skulda stórar fjárhæðir og það sé enginn að pína það í þrot, rekstrarumhverfið á Íslandi sé einfaldlega með þeim hætti um þessar mundir að ekki sé grundvöllur til að reka veitingastað í líkingu við Friðrik V.  „Við hófum starfsemi í allt öðru umhverfi en nú er, það eru aðrir tímar og við sjáum ekki annað en áframhaldandi samdrátt á öllum sviðum, við töldum því heiðarlegast gagnvart okkar starfsfólki, birgjum og öðrum að hætta rekstrinum núna," segir Friðrik.

Nýjast