Vegurinn um Víkurskarð hefur verið opnaður á ný

Vegurinn um Víkurskarð hefur verið opnaður á ný, eftir að jeppi og vörubíll með snjótönn, sem voru að koma úr gagnstæðri átt, skullu mjög harkalega saman skömmu fyrir hádegi.  

Ökumaður jeppans missti stjórn á bíl sínum með fyrrgreindum afleiðingum. Tveir menn sem voru í jeppanum voru fluttir á slysadeild FSA með minniháttar meiðsl og þá hefur ökumaður vörubílsins einnig leitað til slysadeildar, vegna eymsla í hálsi og baki. Snjómokstur stendur yfir á Víkurskarði en þar eru aðstæður erfiðar og veður slæmt, að sögn Stefáns Þengilssonar en fyrirtæki hans hefur með snjómokstur að gera á þessu svæði. Hann sagði að áreksturinn í morgun hefði verið gríðarlega harður, jeppinn væri ónýtur og snjóruðningsbíllinn mjög illa farinn, ef ekki ónýtur. Stefán sagði mjög mikilvægt að ökumenn færu varlega, væru á vel búnum bílum og sýndu varkárni. Einnig væri mjög mikilvægt að fólk væri líka vel búið, ef eitthvað kæmi upp á. "Þetta er enginn staður fyrir háa hæla," sagði Stefán.

Hann sagði það reyndar umhugsunarefni hvort ástæða sé til að reyna halda leiðum eins og um Víkurskarð opnum, þegar veðrið er þetta slæmt. "Það má aldrei slaka á en trúlega verður ekkert gert í þessum málum fyrr enn einhver lætur lífið," sagði Stefán.

Á Norðurlandi eru hálka, snjókoma, skafrenningur og éljagangur á flestum leiðum og Lágheiði er ófær.

Nýjast