Um helgina verður blásið til hátíðar á Akureyri í tilefni sjómannadagsins og deginum fagnað með dagskrá bæði laugardag og sunnudag. Á laugardaginn gefst gestum færi á að kíkja inn í verbúðir og ganga bryggjurnar í Sandgerðisbótinni þar sem smábátaeigendur taka á móti þeim. Bátavélasýning Þórhalls Matthíassonar sem er til húsa að Óseyri 20 verður opin. Boðið verður upp á súpu í boði Kaffi Ilms og kjötsúpu að hætti Guðjóns Oddssonar.
Siglingaklúbburinn Nökkvi og skútueigendur kynna skútusiglingar við Hofsbryggjuna auk þess sem landkröbbum og öðrum gefst kostur á að stíga ölduna. Vegleg fjölskylduskemmtun á vegum sjómanna verður á útivistarsvæði skáta að Hömrum frá kl. 14- 17. Sýnd verða atriði úr Tuma tímalausa og Sirkus Ísland skemmtir. Töframaður, andlitsmálun, kassaklifur og karmelluflug og fleira mun gleðja unga sem aldna þennan dag. Þyrla landhelgisgæslunnar verður með björgunarsýningu og sjómenn reyna með sér í fótbolta, reiptogi og þrautum. Sjómannadagsdagskvöldverður verður haldin í Menningarhúsinu Hofi og sjómannadagsball á Græna Hattinum, þar sem Helgi Björns og Reiðmenn vindanna leika fyrir dansi.
Á sunnudaginn, sjálfan sjómannadaginn, hefjast hátíðarhöld með hefðbundnum hætti; sjómannamessur verða í Akureyrar- og Glerárkirkju og blómsveigur verður lagður að minnisvarða um týnda og drukknaða sjómenn. Húni II siglir klukkan 13 frá Torfunefsbryggju að Sandgerðisbót, þar sem smábátasjómenn fjölmenna og munu bátarnir sigla saman aftur að Torfunefsbryggju. Dagskrá til heiðurs sjómönnum hefst kl. 14 í Menningarhúsinu Hofi þar sem Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar, flytur hátíðarávarp, Katrín Hólm Hauksdóttir hugleiðir líf sjómanskonunnar og Linda María Ásgeirsdóttir segir frá lífinu í sjávarþorpi fyrir og eftir kvóta auk þess sem ljúfir tónar munu óma um húsið. Kappróður hefst kl. 15 á Pollinum. Fólk er hvatt til að koma og hvetja sitt lið en tilvalið er að vera á Hofsbryggjunni til þess.
Í Menningarhúsinu Hofi verður hægt að virða fyrir sér 18 eyfirsk bátalíkön eftir Grím Karlsson en það er Strandmenningarfélag Akureyrar sem stendur fyrir sýningunni. Vert er að benda á að hún stendur einungis þennan eina dag. Þegar degi fer að halla eða nánar tiltekið kl. 16.15 og 17.15 gefst bæjarbúum og gestum þeirra kostur á að sigla með Húna II um Pollinn. Siglt verður frá Torfunefsbryggju og kaffisala er um borð.