Vefsíða Vikudags opnuð

Elsti áskrifandi Vikudags og elsti íbúi Akureyrar, hinn 102ja ára gamli Ólafur Árnason, opnaði í dag nýja vefsíðu Vikudags á vefslóðinni http://www.vikudagur.is/ .  Ólafur hefur átt samleið með blaðinu lengi og því þótti við hæfi að þessi aldni höfðingi tæki þetta skref blaðsins inn í framtíðartæknina.  Vikudagur hefur til þessa ekki verið með sérstaka fréttavefsíðu, en stefnir að því að margfalda þjónustuna við lesendur sína með tilkomu frétta-og upplýsingavefsins.  Blaðið og vefurinn munu vinna saman  og veita heildstæða fréttaþjónustu þar sem vefur mun fylla upp í skörð sem blaðið skilur eftir og blaðið mun bæta inn í og fullkomna þá mynd sem fram kemur á vefnum.

Það er fyrirtækið Stefna sem hýsir vefinn fyrir Vikudag, en blaðamenn blaðsins munu sjá um að skrifa inn á hann og daglega verða settar inn fréttir og upplýsingar sem skipta lesendur máli.

Meðal nýjunga sem teknar verða upp á vefsvæðinu http://www.vikudagur.is/  má nefna sérstaka bíla og umferðarumfjöllun sem Úlfar Hauksson framkvæmdastjóri og bílaáhugamaður mun fjalla um. Þá verða birtar mataruppskriftir úr Matarkróki Vikudags sem hafa verið sérstklega vinsælar.  Næstu vikur og mánuði mun vefsíðan vera í stöðurgri þróun og eru lesendur hvattir til að senda okkur ábendingar um það sem betur mætti fara.

Í október síðastliðnum var rætt við Ólaf Árnason í tilefni af 102 ára afmæli hans. Viðtalið við hann fer hér á eftir:

  

Ólafur Árnason 102 ára:

Hef séð um mig sjálfur alla tíð og geri enn

Ólafur Árnason mjólkurfræðingur á Akureyri fagnaði 102 ára afmæli sínu sl. þriðjudag. Ólafur er Þingeyingur að ætt, frá Kvíslarhóli á Tjörnesi, en hann fæddist á Húsavík 24. október 1904. Ólafur átti 12 systkini, var sjálfur í miðjum hópi og hann á einn bróður, 10 árum yngri, á lífi.

Ólafur býr í Lindasíðu á Akureyri , unir hag sínum vel og er sáttur við sitt hlutskipti.

Hann er við ágæta heilsu, þótt sjón og heyrn séu farin að daprast, en hann les blöð og bækur, horfir á sjónvarp og hlustar á fréttir. Ólafur var að horfa á fréttirnar í Sjónvarpinu þegar Vikudagur heimsótti hann í gærkvöld en hann er einmitt elsti áskrifandi blaðsins.

Ólafur sagðist hafa búið einn alla tíð, ógiftur og barnlaus, ávallt verið í leiguíbúðum, aldrei átt bíl og ekki ekið bíl frá því hann lærði á bíl á sínum tíma. Hann gekk mikið og telur að það hafi haft sitt að segja. "Ég hef haft jafna og góða heilsu og getað séð um mig sjálfur alla tíð og geri enn. Ég hef lifað reglubundnu lífi - breytingar eiga ekki vel við mig og ég reyni að forðast þær," sagði Ólafur, sem er ekkert farinn að hugsa um að fara á elliheimili.

Hann segir gott að búa í Lindasíðunni, enda rólegt yfir hlutunum. "Ég tek lítinn þátt í félagsstarfinu hér en fylgist frekar með fréttum og hef mjög gaman af landsmálafréttum." Ólafur sagði þjóðfélagið á réttri leið á margan hátt en þó væri erfitt að stjórna Íslendingum, sem hætti til að fara feti of langt. Þá telur hann ökumenn sem aka allt of hratt vera hættulega umhverfinu.

Ólafur sagðist hafa á sínum yngri árum starfað sem vinnumaður við landbúnað á Tjörnesi, í Aðaldal, í Kelduhverfi og í Mývatnssveit. "Ég fór úr Mývatnssveitinni í búfræðinám á Hólum í Hjaltadal en að því loknu kom ég til Akureyrar og fór að vinna í Mjólkursamlagi KEA árið 1935." Hann fór og lærði mjólkurfræði í Danmörku en kom svo aftur til KEA og vann í Mjólkursamlaginu á tveimur stöðum í Gilinu og svo í núverandi húsnæði Norðurmjólkur við Súluveg. Hann hætti í föstu starfi hjá KEA eftir 40 ár en vann þó við sumarafleysingar til ársins 1982. Þá stundaði hann rjúpna- og laxveiðar fram til árins 1985 en hefur haft hægt um sig frá þeim tíma.

Nýjast