Veðurspáin frá því í gær virðist ætla að ganga eftir

Flest allar aðalleiðir eru greiðfærar. Snjóþekja er á Gemlufallsheiði og snjóþekja og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði einnig er snjóþekja og éljagangur á Þröskuldum. Hálkubletttir eru í Súganda- og Önundarfirði sem og á Klettshálsi. Snjóþekja og hálkublettir eru á Öxnadalsheiði, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Hins vegar segir í ábendingu frá veðurfræðingi að svo virðist sem spáin frá því í gær sé að ganga eftir í öllum aðalatriðum. Hríðin verður dimm um tíma og m.a. vegna þess hvað veðurhæðin verður mikil, víða 18-23 m/s og 20-25 m/s austanlands með kvöldinu. Í byggð norðan- og austanlands verður krapi eða bleytusnjór sem verður að ísingu eftir því sem kólnar í dag og kvöld.

Vestfirðir. Hríðarveður er víða á Vestfjörðum, einnig í byggð, en þar dregur úr ofankomu um og eftir hádegi og aðeins él upp úr því og kólnandi. Sunnantil á Vestfjörðum sleppur þó að mestu við snjókomu.

Norðurland. Versnandi veður á Norðurlandi. Víðast hríð, en krapi og síðar snjór á láglendi frá því fyrir hádegi og fram á kvöld. Vaxandi veðurhæð og NA 18-23 m/s um og eftir miðjan daginn. Blint og takmarkað skyggni, sérstaklega á fjallvegum. Ofankoman verður lítil og sums staðar engin vestantil á Norðurlandi, en þar engu að síður hvasst og hætt við hálku.

Austanlands helst veður skaplegt fram eftir morgninum, en versnar síðan mjög. Þétt og samfelld ofankoma frá því um hádegi og fram á kvöld. Á láglendi rigning og krapi og ekki snjókoma fyrr en líða tekur á daginn og þá suður fyrir miðja Austfirði. Hætt er við að afar blint verði, s.s. á Fagradal og víðar þar sem fer saman talsverð ofankoma og mikil veðurhæð.

Vindhviður. Gera má ráð fyrir snörpum vindhviðum 30-40 m/s á sunnanverðu Snæfellsnesi einkum í Staðarsveit fram á kvöld einnig á Kjalarnesi 30-35 m/s frá því eftir miðjan daginn og eins í kvöld. Suðaustanlands er reiknað með byljóttum vindi og vindhviðum allt að 35-45 m/s frá því fljótlega eftir hádegi og fram á nótt.

Nýjast