Vaxandi fjöldi mætir í landamæraskimun tvö

Beðið eftir að komast í landamæraskimun tvö. Mynd Margrét Þóra
Beðið eftir að komast í landamæraskimun tvö. Mynd Margrét Þóra

Fjöldi þeirra sem mætir í seinni landamæraskimun vegna Covid-19 á Akureyri hefur farið vaxandi dag frá degi. Flytja þurfti skimunina vegna aukins umfangs úr húsnæði Heilbrigðisstofnunar Norðurlands í Amaróhúsinu við Hafnarstræti og var landamæraskimun tvö flutt að Strandgötu 31.

Guðný Friðriksdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSN segir að opið sé í tvo tíma í senn á virkjum dögum og lokað um helgar. Oftast myndast því uppsöfnuð þörf eftir helgar auk þess sem flestir mæti um leið og opnað er. Þá megi gjarnan sjá myndarlegar raðir.

320 sýni afgreidd á rúmum klukkutíma

Hún segir framkæmd ganga fljótt fyrir sig, enda sé nægur mannskapur að störfum, allt að 10 manns í einu sem sjá um skimun. “Við afgreiddum yfir 320 sýni á rúmun klukkutíma á mánudaginn og allt gekk vel fyrir sig. Starfsfólk er afskaplega sveiganlegt og öflugt í þessum kringum stæðum,” segir hún.

Stærstu hóparnir eru frá Póllandi, Ítalíu og Spáni og segir Guðný fólk almennt mjög kurteist og þolinmótt í þessum aðstæðum.

Þá segir hún að starfsfólk HSN hafi einnig  verið að framkvæma fyrstu skimun á farþegum sem koma með litlum einkaflugvélum á Akureyrarflugvelli og það hefur sömuleiðis gengið mjög vel. Að jafnaði komi um tvær til fjórar slíkar vélar á viku.  

 


Athugasemdir

Nýjast