Vantar allt að 50 stöðugildi við Háskólann á Akureyri

Ríflega 180 stöðugildi eru við Háskólann á Akureyri, miðað við nemendafjölda lætur nærri að stöðugil…
Ríflega 180 stöðugildi eru við Háskólann á Akureyri, miðað við nemendafjölda lætur nærri að stöðugildi þyrftu að vera um 230 í allt.

Háskólinn á Akureyri er í hópi þriggja stærstu háskóla landsins, starfsmenn voru á liðnu ári 193 talsins í ríflega 180 stöðugildum og bendir Eyjólfur Guðmundsson rektor háskólans á að miðað við nemendafjölda láti nærri að stöðugildi þyrftu að vera um 230 í allt.

„Það vantar allt að 50 stöðugildi við skólann, bæði til að unnt sé að sinna námi nemenda með sambærilegum hætti og gert er á öðrum Norðurlöndum og eins til að starfsfólk geti í ríkari mæli einbeitt sér að rannsóknum og uppbyggingu framhaldsnáms við skólann,“ segir Eyjólfur. „Ákall okkar til stjórnvalda er því skýrara en nokkru sinni fyrr, við þurfum að fá við því svör hversu marga nemendur skólinn fær greitt fyrir að mennta og hvert framlag sé á hvern og einn nemenda.“

Samkvæmt fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er það fjármagn sem veita á til reksturs háskóla hvergi nærri nóg til að ná því markmiði að fjármagn á hvern nemenda sé nálægt meðaltali hvorki OECD ríkjanna né annarra Norðurlanda. „Það gefur auga leið að aukið fé til háskóla á hvern nemenda hefur í för með sér að unnt er að ráða inn fleira starfsfólk, bæta aðstöðu nemenda til náms sem og einnig aðstöðu starfsfólks til að sinna bæði kennslu og rannsóknum. Við þetta þurfa stjórnvöld að glíma, boltinn er hjá þeim,“ segir Eyjólfur. Hann fer nánar yfir málefni Háskólans á Akureyri í viðtali í prentútgáfu Vikudags.

Nýjast