Ólafur Jónsson skrifar
Eftir að meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar komst að þeirri niðurstöðu í bæjarstjórn 6. des. sl. að ég væri vanhæfur til að taka þátt í umræðu og afgreiðslu deiliskipulagstillögu um Dalsbraut taldi ég að nú væri mál að linni. En eftir viðtal við Odd Helga Halldórsson formann bæjarráðs í Vikudegi sl. fimmtudag þar sem hann segir að ég hafi ákveðið að hunsa kröfuna um vanhæfi og bæjarstjórn hafi því orðið að gæta að góðum stjórnsýsluháttum hef ég ákveðið að senda innanríkisráðuneytinu erindi þar sem ég óska eftir að þessi ákvörðun bæjarstjórnar verði skoðuð sérstaklega. Ég á einskis annars úrkosti fyrst að svo er komið málum.
Ég vakti athygli forseta bæjarstjórnar og bæjarfulltrúa á því, tímanlega fyrir bæjarstjórnarfundinn, að enn lægi óafgreidd kæra Bjarna Sigurðssonar formanns hverfisnefndar Naustahverfis inn í stjórnsýslunefnd. Bjarni hafði í viðtalstíma bæjarfulltrúa 13. okt. sl. lagt inn kæru þar sem hann efaðist um hæfi mitt til að fjalla um málefni Dalsbrautar í bæjarstjórn sökum búsetu og fyrri aðkomu minnar að málinu. Bæjarráð vísaði síðan málinu til stjórnsýslunefndar til afgreiðslu 20. okt sl. Ég sagði forseta bæjarstjórnar að mér þætti það óþægilegt og óeðlilegt að kæran hefði ekki fengið afgreiðslu í nefndinni áður en deiliskipulagstillagan kæmi á dagskrá bæjarstjórnar. Forseti bæjarstjórnar svaraði því til að ekki hafi tekist að afla gagna í málinu frá Bjarna og því hafi málið ekki verið tekið fyrir í stjórnsýslunefnd. Nú ber svo við að kæra Bjarna verður tekin fyrir í stjórnsýslunefnd 16. des. nk.
Það sem á eftir fylgdi snérist síðan um það að eiginkona mín hafði skilað inn athugasemdum við skipulagstillöguna. Athugasemdir hennar voru mjög almenns eðlis og snéru að umferðaröryggi, umhverfi Lundarskóla og eins því að ekki væri þörf á lagningu götunnar vegna umferðarþunga í fyrirsjáanlegri framtíð. Þessar athugasemdir voru í takt við flestar af þeim 55 athugasemdum sem bárust við skipulagið frá einstaklingum, hverfisnefnd, Lundarskóla og eins Skipulagsstofnun sem taldi alls ekki augljóst að óbreytt gatnakerfi (núllkostur) hafi neikvæð áhrif á umhvefisþáttinn samgöngur. Engin af athugasemdunum eiginkonu minnar snéri að sameiginlegri húseign okkar eða lóð.
Einn bæjarfulltrúa var afgerandi í afstöðu sinni fyrir fundinn og sagði að ég væri vanhæfur sökum þess að eiginkona mín væri orðin aðili að málinu þar sem hún lagði inn athugasemdir. Hvert innihald athugasemdanna væri skipti ekki máli. Álit bæjarlögmanns og lögmanns sambands íslenskra sveitarfélaga var á sömulund. Ekki kom fram að lögmennirnir hafi lesið athugasemdir eiginkonu minnar eða farið yfir allar athugasemdirnar í heild sinni til að leggja mat á það hvort þær vörðuðu hagsmuni okkar sérstaklega. Þeir höfðu heldur ekki samband við mig til að fá heyra mitt sjónarmið í málinu
Um hæfi sveitarstjórnarmanna segir 1. m.gr. 19. gr. Sveitarstjórnarlaga; að sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.
Ég er því ekki sammála að athugasemdir eiginkonu minnar, jafn almenns eðlis og þær voru, geri mig vanhæfan í þessu máli. Hver er réttur maka bæjarfulltrúa sem íbúa til að lýsa skoðunum sínum á málefnum bæjarfélagsins þegar bæjarstjórn túlkar þetta með þessum hætti?
Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.