Fyrri hálfleikur leiksins var í járnum og var munurinn aldrei meiri en tvö mörk, þar sem varnarleikurinn var í fyrirrúmi hjá báðum liðum. Norðanmenn höfðu eins marks forystu í hálfleik, 15:14.
Valur byrjaði seinni hálfleikinn betur og skoraði fyrstu tvö mörkin. Akureyri misnotaði tvö víti í seinni hálfleik sem er dýrt í jöfnum leik sem þessum og Valsmenn náðu þriggja marka forystu í fyrsta skiptið í leiknum þegar 15 mínútur voru til leiksloka. Norðanmenn gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í eitt mark, 26:25, þegar mínúta var eftir af leiknum. Akureyri vann svo boltann og náði síðustu sókninni í venjulegum leiktíma. Þegar tíminn virtist vera að renna Akureyringum úr greipum fékk Jónatan Þór Magnússon boltann óvaldaður á línunni og jafnaði metin í 26:26 og því þurfti að framlengja.
Í framlengingunni voru það Valsmenn sem reyndust sterkari með fullt hús áhorfenda á bak við sig og skoruðu fjögur mörk gegn engu norðanmanna og tryggðu sér fjögurra marka sigur, 30:26.
Hlynur Morthens í marki Vals reyndist norðanmönnum erfiður sem oft áður og varði 15 skot, oft á tíðum á afar mikilvægum augnablikum. Elvar Friðriksson var markahæstur Valsmanna í kvöld með 8 mörk og þeir Fannar Friðgeirsson og Arnór Þór Gunnarsson komu næstir með 7 mörk hvor.
Í liði Akureyrar var það Oddur Gretarsson sem var markahæstur með 9 mörk, þar af 5 úr vítum en Oddur átti mjög góðan leik í kvöld. Heimir Örn Árnason skoraði 6 mörk og Guðmundur Hólmar Helgason kom honum næstur með 3 mörk. Hafþór Einarsson átti góða innkomu í mark Akureyrar og varði 17 skot, þar af 3 víti, en Hörður Flóki Ólafsson varði 2 skot.