Arndís Sigurpálsdóttir verkefnisstjóri kynnti aðgerðalista sem unnið verður eftir, fór yfir hvað er þegar búið að vinna og hvað er fyrirhugað á næstu vikum. Verður verkefnið unnið samhliða uppbyggingarstefnunni sem skólinn vinnur eftir, enda fellur þetta tvennt mjög vel saman. Ingibjörg Auðuns mun koma að starfinu, enda með verulega reynslu á þessu sviði. Arndís sagðist horfa með mikilli tilhlökkun til þessa starfs sem hún sagði hafa farið mjög vel af stað. Liður í áætluninni er könnun sem lögð verður fyrir nemendur í lok febrúar og verður hún einnig kynnt foreldrum.
Undir þessum lið á fundi skólanefndar, spunnust langar umræður um eineltismál, meðferð þeirra og almenn samskipti innan skólasamfélagsins. Voru allir sammála um að innleiðing eineltisáætlunar Olweusar væri mikið gæfuspor og mikilvægur vegvísir inn í framtíðina. Rætt var um mikilvægi þess að hafa aðgengilegar upplýsingar um framgang áætlunarinnar. Heimasíða skólans er loksins að komast í gott horf og getur því nýst sem upplýsingabrunnur um Olweusar-starfið. Ljóst er að sérstaklega mikilvægt er að kynna starfið á meðan það er að fara af stað. Lagt var til að dreifibréf yrði sent á öll heimili í sveitinni með kynningu á áætluninni og nýrri, aðgengilegri heimasíðu.