Valgerður gefur kost á sér í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins
04. desember, 2012 - 13:52 Fréttir
Valgerður Gunnarsdóttir
Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans á Laugum, gefur kost á sér í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Valgerður var forseti bæjarstjórnar á Húsavík frá 1994 til 1996 og sat í bæjarstjórn þar frá 1986 til 1998. Á árunum 1986 til 1990 var Valgerður í stjórn útgerðarfélagsins Höfða á Húsavík.
Valgerður var íslenskukennari og deildarstjóri við Framhaldsskólann á Húsavík frá stofnun skólans árið 1987 til ársins 1999, þegar hún var skipuð skólameistari við Framhaldsskólann á Laugum. Hún er formaður Skólameistarafélags Íslands.
Valgerður er fædd á Dalvík árið 1955. Foreldrar hennar eru Ásta Jónína Sveinbjarnardóttir og Gunnar Þór Jóhansson skipstjóri. Eiginmaður hennar er Örlygur Hnefill Jónsson lögmaður. Þau eiga þrjú börn, sem saman reka ferðaþjónustu á Húsavík. Valgerður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og BA prófi í íslensku og bókmenntafræði frá HÍ 1982. Árið 1996 lauk hún námi í uppeldis- og kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri.
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fer fram 26. janúar 2013.
Nú í ár eru nákvæmlega 50 ár liðin síðan hestamenn á Akureyri og í Eyjafirði hófu uppbyggingu mótsvæðis hestamanna á Melgerðismelum og árið 1976 var fyrsta fjórðungsmót Norðlenskra hestamanna haldið þar