„Væri til í að eyða jólunum við veiðar á Nýja-Sjálandi“

Pálmi Gunnarsson togast á við stórlax í Rynduánni á Kolaskaga. Pálmi segir í viðtalinu að hann sé má…
Pálmi Gunnarsson togast á við stórlax í Rynduánni á Kolaskaga. Pálmi segir í viðtalinu að hann sé mátulega mikið jólabarn og er alveg til í að skipta á íslenska jólamánuðinum og þeim nýsjálenska.

Pálmi Gunnarsson er einn af ástsælustu tónlistarmönnum landsins og hefur átt farsælan tónlistaferil í yfir fimmtíu ár og gert garðinn frægan með hljómsveitum eins og Brunaliðinu sem átti nokkra af stærstu smellum Íslandssögunnar, Mannakornum sem hefur fyrir löngu skipað sér ákveðinn sess meðal þjóðarinnar og rokksveitarinnar Friðryk. Líklega er Pálmi þekktastur fyrir störf sín í Mannakornum en hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu árið 1975 og er enn starfandi.

Pálmi er fæddur 29. september árið 1950. Átta ára fékk hann litla takkaharmonikku í jólagjöf og má segja að sú gjöf hafi langt grunninn að farsælum tónlistaferli hans.

„Ég ákvað að verða atvinnutónlistamaður“

-Pálmi hefur verið viðloðandi íslenska tónlist í áratugi – en hvað varð til þess að hann ákvað að gerast atvinnutónlistarmaður?

„Það er margt sem ég gæti nefnt, en trúlega fyrst og síðast löngun til að lifa af tónlist. Ég var 19 ára þegar ég var ráðinn sem bassaleikari og söngvari í hljómsveit í Reyk javík. Eftir það fór boltinn að rúlla og ég hef verið að síðan og er enn á fullu.“

Hvað varðar áhrifavalda, höfðu Bítlarnir og Rolling Stones mikil áhrif á Pálma en þess utan hafi hann verið alæta á tónlist. Pálmi, sem hefur verið í sviðsljósinu í áratugi, varð frægur á einni nóttu í hlutverki Júdasar í uppsetningu Leikfélags Reykjavíkur á Jesus Christ Superstar og eftirminnileg er þátttaka hans með ICY-hópnum sem var frumraun Íslendinga í Eurovision árið 1986. Mikil eftirvænting ríkti meðal þjóðarinnar og voru götur borgarinnar auðar þegar Pálmi, Helga Möller og Eiríkur Hauksson stigu á svið í Noregi með Gleðibankann.

Gott lag og texti sem ilmar af jólum

-Nú í aðdraganda jóla þegar jólalögin byrja að hljóma á öldum ljósvakans, hljóma mörg lög Pálma sem eru löngu orðin sígild og ómissandi. Lög eins og „Gleði- og friðarjól“ og „Yfir fannhvíta jörð“ eru lög sem koma flestum í rétta jólagírinn. En hvað varð til þess að Pálmi fór að gefa út jólatónlist?

„Það var haft samband við mig frá ákveðinni útgáfu og ég spurður hvort ég hefði áhuga á að gera jólaplötu og ég sló til. Úr varð platan Friðarjól sem sló í gegn þrátt fyrir erfiða fæðingu.“ Platan Friðarjól var fyrsta jólaplatan sem Pálmi gaf út og lag og texti Magnúsar Eiríkssonar Gleði og friðarjól hefur verið eitt  vinsælasta íslenska jólalagið síðan það kom út.

Aðspurður hver sé lykilinn að góðu jólalagi svarar Pálmi: „Ef ég á að vera hreinskilinn hef ég ekki hugmynd um það! Sumir myndu segja að töfraformúlan felist í að fá ítalskan sumarsmell að láni, láta gera góðan íslenskan texta við lagið sem ilmar af jólum og stemmingunni sem við erum að leita að í desember. En ætli þetta sé ekki fyrst og síðast spurning um gott lag og texta sem fólk getur tengt við.“

-Pálmi er þarna að vísa til þess að mörg af okkar vinsælustu jólalögum eru einmitt ítalskir smellir, lög eins og „Ég hlakka svo til“ flutt af Björgvini Halldórssyni og Svölu Björgvins. Upprunalega lagið heitir „Dopo La Tempesta“ eða „Eftir storminn“ og fjallar texti lagsins um konu í ástarsorg, ólíkt því að að hlakka svo til jólanna (innskot blaðamanns).

Pönkaður jólaköttur Ingibjargar Þorbergs í uppáhaldi

-Þegar öllu er á botnin hvolft er það sennilega rétt sem Pálmi bendir á, að það sé textinn og gott lag sem skipti máli, en hvert skyldi hans uppáhalds jólalag vera?

Jólakötturinn eftir Ingibjörgu Þorbergs kemur upp í hugann. Pönkaður texti og þjóðlegt stuð. Af erlendum jólalögum þá finnst mér Fairytale of New York með The Pouges og Kristy MacColl klassík, sem nauðsynlegt er að heyra einu sinni í desember.“ Aðspurður segir Pálmi að það sem komi honum fyrst og síðast í  jólaskap sé tilhugsunin um tíma með fólkinu sínu og greni sem hann brennir, „lyktin af brenndu greni er ómótstæðileg“.

Pálmi segist vera mátulega mikið jólabarn og væri alveg til í að skipta á íslenska  jólamánuðinum og þeim nýsjálenska, „einhvers staðar uppi í fjöllum að veiða stóran urriða með þurrflugu, eða á sólarströnd á stuttbuxum segjandi eitt hó á aðfangadagskvöld og annað á gamlárskvöld.“

Þó að heimsfaraldurinn  hafi sett strik í reikningin hjá tónlistarmönnum sem eru vanalega á fullu í kringum jól og áramót að afla tekna, lítur Pálmi á björtu hliðarnar og segir að ástandið bjóði í staðinn upp á „nægan tíma í faðmi fjölskyldu, á ullarsokkum, sötrandi heitt súkkulaði og lesa góðar bækur.“

Rjúpa, hangikjöt, humar og heiðagæs

-Að lokum er Pálmi spurður um hvað sé á matseðlinum um hátíðirnar.

„Rjúpa er hefð, taðreykt hangikjöt, humar og heiðagæs og svo allt hitt sem fylgir því að éta á sig gat í hálfan mánuð. Sem hefur þær afleiðingar að maður bíður spenntur eftir átaksauglýsingum frá líkamsræktarstöðvum í byrjun árs ásamt aulýsingum um hin ýmsu bætiefni sem grenna mann á ljóshraða,“ segir Pálmi Gunnarsson að lokum.

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikublaðsins sem unnið var af nemendum í fjölmiðlafræði við HA.

                                                                                                                       

 


Athugasemdir

Nýjast