Úttekt um brunavarnir ekki virt í skammtímavistun barna

Orkuhúsið sem uppfyllir ekki skilyrði til gististarfsemi. Mynd/epe
Orkuhúsið sem uppfyllir ekki skilyrði til gististarfsemi. Mynd/epe

Eins og kom fram í umfjöllun í Vikublaði síðustu viku hefur hús Orkuveitu Húsvíkur að Vallholtsvegi 3, Orkuhúsið svo kallaða verið notað síðan í sumar sem frístundarhús fyrir börn með fatlanir. Jafnframt hefur í húsinu verið starfrækt skammtímavistun fyrir sama hóp barna, þar sem börnin gista ásamt starfsfólki um helgar. Síðast var gist í húsinu 11-13 september sl., í óþökk slökkviliðsstjóra. Nú hefur slökkviliðsstjóri Norðurþings tekið húsið út með tilliti til brunavarna og er heimilt að í húsinu séu allt að 40 einstaklingar í einu. „Að því gefnu að hlutirnir séu með eðlilegum hætti. Þessar reiknireglur eru þannig að það er reiknað á einstakling út frá ónýttu gólfplássi, þ.e.a.s. húsbúnaður og innréttingar eru dregnar frá. Viðmiðið er tveir fermetrar á einstakling,“ útskýrir Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri í samtali við Vikublaðið.

Blátt bann við gistingu

Þá vekur athygli að samkvæmt úttektinni er blátt bann lagt við því að gist sé í húsinu. „Þetta hús uppfyllir einfaldlega ekki kröfur sem gistihús. Ef menn ætla sér að fara gista í Orkuhúsinu þá þarf það að uppfylla skilyrði um klæðningar í flokki 1 en húsið er allt klætt með spónarplötum að innan. Við erum búin að vera horfa upp á nógu ljóta bruna á landinu síðustu mánuði sem hafa haft alvarlegar afleiðingar, þannig að við erum mjög stífir á þessu. Fyrir utan það að svona hús með gistingu er í raun og veru leyfisskyld,“ segir hann. Samkvæmt  upplýsingum Vikublaðsins hefur aldrei verið sótt um slíka leyfisveitingu fyrir húsið. Þá ítrekaði Grímur að gisting eins og verið hefur í húsinu væri ekki heimiluð af hálfu slökkviliðsstjóra. „Það er alveg klárt mál.“ Samkvæmt upplýsingum Vikublaðsins sem Grímur hefur staðfest var skýrsla um úttektina send sviðsstjórum 7. september.

Harma mistökin

 Þrátt fyrir að úttekt slökkviliðsstjóra hafi legið fyrir var tekin ákvörðun um að gist yrði í húsinu eina helgi til viðbótar. Það var gert eins og áður segir 11-13 september. Hjá félagsþjónustunni fengust þau svör að þetta hafi verið ákveðið í fljótfærni enda hafi samningaviðræður staðið yfir við eiganda gistihúss skammt frá um gistipláss. Hróðný Lund, félagsmálastjóri Norðurþings sagði í samtali við Vikublaðið að hún harmaði mistökin. „Ég lít þetta mjög alvarlegum augum og þetta verður tekið til skoðunar hér innanhúss,“ segir hún.

„Menn einfaldlega að brjóta af sér“

Grímur Kárason slökkviliðsstjóri var brugðið þegar blaðamaður upplýsti hann um að gist hafi verið í húsinu eftir að úttektin var kynnt. „Þá eru menn einfaldlega að brjóta af sér og ég vona að þeir einstaklingar sem taka svona ákvarðanir átti sig á því hvaða ábyrgð þeir eru að taka sér á hendur með þessu. Ábyrgðin er alltaf í höndum húseiganda sem í þessu tilfelli er þá væntanlega sveitarfélagið, sem er háalvarlegt. Þetta er ekkert grín, þetta hús er ekki gert fyrir gististarfsemi og þarna er verið að tala um börn. Mér finnst þetta mikill ábyrgðarhluti þegar fólk hagar sér ekki eins og lagt er fyrir það,“ segir Grímur og bætir við að það sé nóg búið að vera um bruna sem kostað hafa mannslíf. „Við veitum ekki afslátt af þessu, það er ekki í boði og við gerum það aldrei í okkar eftirliti. Það er ekkert flókið.“ Nú hefur verið samið við gistiheimilið Húsavík Green Hostel á Vallholtsvegi skammt frá Orkuhúsinu um leigu á tveimur herbergjum fyrir skammtímavistunina. Börnin munu því eftir sem áður nýta Orkuhúsið frá morgni til kvölds og það sama gildir um frístundarúrræðið sem rekið hefur verið í húsinu á virkum dögum. Börnin ganga þá yfir götuna að kvöldi að gistiheimilinu og gista í þessum tveimur herbergjum og verður hópunum kynjaskipt. Börnin snúa síðan aftur í Orkuhúsið að morgni. Norðurþing greiðir 75 þúsund á mánuði fyrir herbergin en samkvæmt upplýsingum blaðsins er þetta um bráðabirgða úrræði að ræða á meðan betri lausn verður fundin.

Fyrirvari:

Blaðamaður sem skrifar fréttina er foreldri barns sem nýtt hefur þjónustuna sem er til umfjöllunar.


Nýjast