Útsvarstekjur um 80 milljónum meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir

Að meðaltali hækkuðu útsvarstekjur sveitarfélaganna um 10%, en hækkunin á Akureyri er undir því, nem…
Að meðaltali hækkuðu útsvarstekjur sveitarfélaganna um 10%, en hækkunin á Akureyri er undir því, nemur tæpum 8%. Sveiflan er upp á við en aðeins hægari á Akureyri en mörgum öðrum sveitarfélögum.

„Þetta er mjög jákvætt. Það er alltaf gaman að sjá meiri tekjur en ráð var fyrir gert,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar. Útsvarstekjur sveitarfélaganna hafa hækkað umtalsvert á fyrri helmingi ársins, um 10% að meðaltali miðað við sama tímabili í fyrra. Útsvartekjur bæjarins námu á fyrri helmingi liðins árs tæplega 4,3 milljörðum króna, á fyrstu 6 mánuðum þessa árs voru þær í kringum 4,6 milljarðar.

Guðmundur Baldvin segir að gert hafi verið ráð fyrir í áætlunum bæjarins að útsvarstekjur myndu hækka um tæplega 6% á milli ára, en raunin orðið sú að hækkunin er tæplega 8%. Það þýðir að tekjurnar eru um 80 milljónum króna meira er ráð var fyrir gert.

„Við eigum eftir að sjá hver þróunin verður á síðari hluta ársins, útsvarstekjur eru sveiflukenndar og ómögulegt að segja fyrir um það nú hvort þetta haldi sér á þessum nótum þegar árið verður gert upp,“ segir hann.

Sveiflan upp á við

Að meðaltali hækkuðu útsvarstekjur sveitarfélaganna um 10%, en hækkunin á Akureyri er undir því, nemur tæpum 8%.  „Það eru alltaf vonbrigði að sjá að við erum undir landsmeðaltali, en þannig hefur það verið um langt skeið, við erum ævinlega aðeins undir landsmeðaltalinu,“ segir Guðmundur Baldvin. „Sveiflan er upp á við en aðeins hægari hjá okkur en mörgum öðrum sveitarfélögum. Það gildir raunar í báðar áttir, þegar tekjurnar lækka fáum við ekki eins harkalegan skell og víða má sjá annars staðar.“


Athugasemdir

Nýjast