Útskriftarsýning listnámsbrautar VMA
Í dag kl. 15:00 verður útskriftarsýning nemenda listnámsbrautar VMA, Fimmtán, opnuð í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Sýning á lokaverkefnum nemenda hefur lengi verið fastur liður í starfsemi listnáms- og hönnunarbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri. Nemendur fá eina önn til að vinna að lokaverkefnum sínum og uppsetningu sýningar í samvinnu við leiðsagnarkennara og samnemendur þar sem áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð.
Á útskriftarsýningunni má sjá fjölbreytt verk; innsetningar, málverk, textílverk, fatahönnun, vídeóverk, húsgagnahönnun og hljóðverk. Sýningin gefur góða innsýn í hið víðtæka nám sem fram fer á listnámsbraut VMA, en þetta er í fyrsta sinn sem hún er haldin í samstarfi við Listasafnið á Akureyri. Jafnframt er sýningin sú fyrsta af þremur þar sem skólabærinn Akureyri er útgangspunktur, en hinar tvær eru Sköpun bernskunnar sem verður opnuð 9. maí og Sjónmennt 2015, sýning útskriftarnema Myndlistaskólans á Akureyri, sem verður opnuð 16. maí.
Útskriftarsýning nemenda listnámsbrautar VMA stendur til 3. maí og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Nemendur verða til umræðu um verkin alla opnunarhelgina.