Útilífsmiðstöðin Hömrum Mikill vöxtur í heimsóknum gesta yfir vetrarmánuðina

Frá Kjarnagötu og að Hömrum er hæðóttur og hlykkjóttur vegur sem getur verið varhugaverður.
Frá Kjarnagötu og að Hömrum er hæðóttur og hlykkjóttur vegur sem getur verið varhugaverður.

Gestum á tjaldsvæðinu að Hömrum hefur það sem af er ári fjölgað í heild um rúmlega 8% miðað við sama tímabili í fyrra, þ.e. frá janúar til ágústloka. Þar vegur hlutfallsleg aukning erlendra ferðamanna meira en þeim fjölgaði um tæp 15% á meðan innlendum ferðamönnum fjölgaði um rúm 5%. Mikil ánægja er með nýjan göngu- og hjólastíg sem lagður var í sumar meðfram Kjarnagötu en hann bætir mjög umferðaröryggi. Ekki voru til peningar til að ljúka verkefninu. Þá er unnið að lausn varðandi það þegar blásið er til hátíðahalda á Akureyri sem skapar aukið álag á tjaldsvæðin 

Ásgeir Hreiðarsson framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvarinnar Hamra segir að veður hafi mikil áhrif á aðsókn ferðalanga að tjaldsvæðunum yfir sumarmánuðina og sem dæmi megi nefna að í júlí fækkaði gistinóttum bæði innlendra og erlendra ferðamanna á Hömrum í heild um 18% á milli ára. „Gistinóttum fækkaði bæði í júní og júlí og þá miðað við sömu mánuði árið á undan en þrátt fyrir það hefur gestum á tjaldsvæðinu fjölgað þegar litið er yfir árið 2023 í heild.”

 Ásgeir segir að töluverður vöxtur hafi orðið í heimsóknum gesta á Hamra yfir vetrarmánuðina og nefnir sem dæmi að frá janúar og til apríl á þessu ári voru í allt voru um 2.400 gistinætur á Hömrum yfir það tímabil. Það er um 42% aukning frá árinu á undan. „Auk þeirra sem gista hefur mjög færst í aukana að fólk nýti sér aðstöðuna að Hömrum yfir vetrarmánuðina til útivistar bæði til göngu og hlaupa og þá velja margir að hefja gönguskíðaiðkun sína frá Hömrum.”

Ásgeir nefnir að á aðalfundi Hamra fyrir þetta ár hafi verið skorað á bæjaryfirvöld að vinna með skátunum að því að bæta aðstöðu gesta á svæðinu með tilliti til breytinga sem orðið hafa á nýtingu svæðisins allt árið um kring.

 Rafrænt skráningar- og afgreiðslukerfi

 „Við fengum styrk í sumar frá Evrópuverkefni Tourbit í gegn um Íslenska ferðaklasann. Þetta verkefni miðar að því að hraða stafrænni vegferð ferðaþjónustufyrirtækja. Að Hömrum er styrkurinn nýttur til að taka upp rafrænt skráningar- og afgreiðslukerfi með það að markmiði að hraða afgreiðslu gesta og bæta aðgangstýringu að svæðinu. Auk þess sem skráning gistinátta verður auðveldari og ítarlegri. Í framhaldinu er svo verið að þróa bókunarsíðu sem hentar rekstrinum og auðveldar gestum að bóka og borga fyrir dvöl sína, á netinu,” segir Ásgeir.    Nú í sumar var hafist handa við gerð göngu- og hjólastígs meðfram Kjarnagötu, en í fyrra skoraði aðalfundur Hamra á Akureyrarbæ að gera slíkan stíg meðfram götunni, upp í Hamra og að Kjarnaskógi. „Það var mjög ánægjulegt að bærinn ákvað að ráðist í þessa framkvæmd nú í sumar, því mikil umferð gangandi og hjólandi er á þessari leið, auk þess sem þarna er mikil umferð bíla sem oft eru með fyrirferða mikla eftirvagna í ofanálag. Því miður var ekki til peningur í að klára þetta verk og leggja stíginn alla leið upp á Hamra, né heldur í Kjarnaskóg,“ segir Ásgeir, en á aðalfundi fyrir þetta ár  var skorað á bæjaryfirvöld að ljúka verkinu og leggja stíg alla leið upp að Hömrum og inn í Kjarnaskóg.

 Hættulegustu kaflarnir eru eftir

 „Mikill fjöldi barna sækir báða þessa staði heim bæði hjólandi og gangandi og má segja að hættulegustu kaflar leiðarinnar séu eftir. Frá Kjarnagötunni og upp að Hömrum er hæðóttur og hlykkjóttur vegur sem getur verið ákaflega varhugaverður. Á erilsömum dögum á tjaldsvæðinu er oft mikil bílaumferð eftir þessari leið og vegurinn ber ekki vel umferð bíla og eftirvagna og hvað þá þegar gangandi, hjólandi eða hlaupahjólandi bætast við. Sömu sögu er að segja af leiðinni inn í Kjarnaskóg, þar sem stígurinn endar nú við afleggjarann upp á Hamra og hættulegasti hluti þeirrar leiðar er einnig ókláraður. Vonandi fást peningar til að klára þessar leiðir sem svo margir nýta bæði bæjarbúar í sinni heilsurækt og gestir sem sækja Hamra og Kjarna heim.“

 Skipulag um álagshelgar

 Í sumar sendi stjórn Hamra bæjaryfirvöldum beiðni um viðræður um framtíðarlausnir vegna þess ástand sem skapast á tjaldsvæðunum, ákveðnar helgar yfir sumarið þegar blásið er til viðburða í bæjarfélaginu, oft í samstarfi við Akureyrarbæ. „Þegar slíkar samkomur eru vill oft fylgja því aukin aðsókn fólks á tjaldsvæðin sem ekki eru endilega með sömu væntingar til kyrrðar og svefnfriðar á tjaldsvæðinu og aðrir gestir sem eru á svæðinu,“ segir Ásgeir, en á Hömrum hefur alla tíð verið lögð mikil áhersla á að reka fjölskylduvænt tjaldsvæði, þar sem gestir fylgi reglum um m.a. næturró. Ýmislegt hafi verið reynt um tíðina bæði á Hömrum og annars staðar og segir hann að í sumar hafi nágrannasveitarfélag t.d. ákveðið að hækka aldursmörk að svæðinu sínu upp í 30 ár eina slíka helgi. „Stjórn Hamra hefur lýst áhyggjum sínum af því ástandi sem kann að skapast og óskaði eftir því  við bæjaryfirvöld að sameiginlega yrði fundin leið á því hvernig hægt er að bregðast við þessu aukna álagi sem verður þessar helgar og hvernig hægt er að tryggja að rekstur tjaldsvæðanna sé í takti við þær væntingar sem bæði gestir og rekstaraðilar hafa til þess,“ segir Ásgeir, en farið var yfir málefni Hamra á fundi bæjarráðs nýverið og segir hann að fram hafi komið margir gagnlegir punktar sem unnið verði með áfram en málinu var vísað  til umhverfis- og mannvirkjasviðs til frekari úrvinnslu.

 

Á erilsömum dögum á tjaldsvæðinu er oft mikil bílaumferð eftir þessari leið sem vegurinn ber ekki vel 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast