Útgerðarfélag Akureyringa er áttatíu ára í dag. - Tímamótanna minnst með ýmsum hætti –

Hluti starfsfólks landvinnslu ÚA / mynd Hörður Geirsson / Samherji
Hluti starfsfólks landvinnslu ÚA / mynd Hörður Geirsson / Samherji

Útgerðarfélag Akureyringa var formlega stofnað 26. maí 1945 og er félagið því 80 ára í dag.

Nokkrum vikum áður eða 14. mars 1945 var boðað til undirbúningsfundar til að kanna áhuga á stofnun útgerðarfélags í bænum, með það fyrir augum að sækja um heimild til skipakaupa til ríkisstjórnarinnar.

Skemmst er frá því að segja að áhugi bæjarbúa var ríkur og því tók tiltölulega skamman tíma að stofna útgerðarfélag með formlegum hætti og senda inn umsókn til ríkisstjórnar.

Tæpum tveimur árum eftir stofnfundinn þann 17. maí 1947 kom fyrsti togari Útgerðarfélags Akureyringa til heimahafnar. Þetta var Kaldbakur EA 1, 654 brúttótonna skip, smíðað í Englandi.

Þennan dag var hátíð á Akureyri, mikill mannfjöldi safnaðist saman á bryggjunni til að taka á móti þessu nýja glæsilega skipi, sem ætlað var að skapa ný störf í bænum.

Kaldbakur EA 1 verður opinn almenningi laugardaginn 31. maí frá klukkan 11:00 - 13:00.mynd Samherji

 

Fleiri togarar bættust við á næstu árum og Útgerðarfélag Akureyringa varð fljótt öflugur burðarás í atvinnulífi bæjarins.

Afmæliskaffi

Í tilefni þessara tímamóta verður almenningi boðið að kynna sér starfsemi ÚA á Fiskitanga, laugardaginn 31. maí, frá klukkan 11:00 -13:00.

Fiskvinnsluhús ÚA verður opið almenningi og kaffiveitingar verða í matsal. Við Togarabryggjuna verður togarinn Kaldbakur EA 1, sömuleiðis opinn almenningi á fyrrgreindum tíma.

Fyrir framan fiskvinnsluhúsið verður ljósmyndasýning, sem varpar ljósi á sögu Útgerðarfélags Akureyringa í 80 ár, bæði til lands og sjávar.

Þetta er kjörið tækifæri til að skyggnast inn í veröld íslensks sjávarútvegs, sem er í fremstu röð á heimsvísu.

Sýning í Iðnaðarsafninu á Akureyri

Afhafnasvæði ÚA. Landvinnsla ÚA verður opin almenningi laugardaginn 31. maí frá klukkan 11:00 - 13:00./ mynd Hörður Geirsson

 

Á sjómannadaginn, sunnudaginn 1. júní klukkan 13:00 opnar sýning í Iðnaðarsafninu á Akureyri, þar sem saga og starfsemi félagsins er rakin í máli, munum og myndum. Húsnæði Iðnaðarsafnsins er á Krókeyri. Frítt er inn á sýninguna þennan dag.

Vel búin landvinnsla og vel búið skip

„Það er okkur sönn ánægja að opna dyrnar og sýna almenningi starfsemina á þessum tímamótum. Hundruð bæjarbúa hafa tekið sín fyrstu skref á vinnumarkaði og fengið sín fyrstu laun í sumarvinnu hjá ÚA. Hérna er greinilega gott að starfa, því starfsaldur hefur alla tíð verið hár hjá félaginu.

Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja / mynd Sindri Swan

 

Landvinnslan er vel búin tækjum og íslensk hátækni er áberandi. Togarinn Kaldbakur EA 1 er sömuleiðis afskaplega vel búið skip á allan hátt og hlaðið hátækni. Eins og tilheyrir á stórum tímamótum verður boðið upp á kaffiveitingar og ég vonast til að bæjarbúar og gestir komi til með að fjölmenna. Sömuleiðis hvet ég fólk til að leggja leið sína í Iðnaðarsafnið, kynna sér söguna og sjá hvernig þessi grunn atvinnugrein þjóðarinnar, hefur þróast í áranna rás,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.

Gjörið svo vel að ganga í bæinn, um borð og í afmæliskaffi

Allir togarar ÚA við Torfunesbryggju, árið 1961. Togararnir voru í landi vegna verkfalls. Ljósmynd: Eðvarð Sigurgeirsson.

 

Kaldbakur EA 1 tekur ís og kost við Sverrisbryggju áður en haldið er til veiða. Vélar skipsins hafa greinilega verið ræstar. Ljósmynd: Gísli Ólafsson.

 

Landvinnslan er afar tæknivædd / mynd Hörður Geirsson

 

Færibandakerfið er stórt, afurðirnar á leiðinni á réttan stað / mynd Hörður Geirsson

 

Líf og fjör í vinnslunni/ mynd Hörður Geirsson

 

 

Í ársbyrjun 1950 var í fyrsta skiptið saltað í landi á vegum ÚA. Myndin sýnir saltfiskstæður norðan við fiskverkunarstöðina árið 1952. Verið er að umstafla. Ljósmyndari: Ó‏þekktur.

 

Það er heimasíða Samherja sem fyrst sagði frá. 

Nýjast