Útgáfu-og kveðjutónleikar Gringlo

Sveitin Gringlo kveður með tónleikum í Hofi.
Sveitin Gringlo kveður með tónleikum í Hofi.

Akureyrska hljómsveitin Gringlo heldur tónleika í Menningarhúsinu Hofi á laugardaginn kemur þann 8. júní og hefjast þeir kl. 20:00. Sveitin gaf nýverið út plötuna From Source to the Ocean - a Tale of Two Rivers. Sveitina skipa þeir Ivan Mendez, söngur og kassagítar, Guðbjörn Hólm, bassi og bakraddir, Guðjón Jónsson, hljómborð og píanó og Arnar Freyr Scheving.

Plata sveitarinnar inniheldur tólf lög og er samsett úr tveimur EP plötum, “From Source” og “To the Ocean.“ Platan er nokkurskonar „concept” plata í tveimur hlutum sem segir frá ferðalagi brotinnar sálar í leit að eigin tilgangi. „Sagan gerist ekki línulega en það má segja að hvert lag sé lítið brot úr heildarsögunni, sem gefur hlustendanum tækifæri á að skyggnast inn í augnablik og minningar. Það er svo sem ekkert leyndarmál og auðvitað frekar augljóst að sagan er um mig sjálfan,“ segir Ivan Mendez, sem er forsprakki hljómsveitarinnar.

Miklar tilfinningar

„Það var mikil tilfinningalosun að koma þessu verki frá sér,“ segir Ivan. „Meðgangan, tónsmíðarnar, útsetningarvinnan, upptökuferlið og framleiðslan eru búin að taka u.þ.b 4 ár í heildina. Ég get orðið frekar manískur þegar það kemur að hugmyndarvinnu, það eru ýmsar pælingar á bakvið söguþráðinn og „artworkið“ sem að munu aldrei líta dagsins ljós en gefa þó heildarmyndinni meiri dýpt þegar upp er staðið.“ Það má með sanni segja að sveitin ætli að klára þetta með hvelli.

„Við erum búnir að fá til liðs við okkur strengja kvartett, blásara, slagverksleikara og bakraddahóp. Þessir tónleikar marka ákveðin endi en einnig nýtt upphaf hjá okkur öllum. Þetta verða ekki einungis útgáfutónleikarnir okkar heldur líka lokatónleikarnir. Það eru blendnar tilfinningar að kveðja hljómsveitina en ég finn að það er kominn tími fyrir eitthvað nýtt,“ segir Ivan Mendez.

Tónleikarnir eru styrktir af Menningarsjóð Akureyrarbæjar. Miðasala er á www.mak.is.


Athugasemdir

Nýjast