Útfjör

Úr sýningunni Útfjör sem LMA sýnir í Samkomuhúsinu.
Úr sýningunni Útfjör sem LMA sýnir í Samkomuhúsinu.

Eftir: Lisa Kron og Janine Tesori. Íslensk þýðing: Anna Gunndís Guðmundsdóttir. Leikstjórn: Anna Gunndís Guðmundsdóttir. Tónlistarstjórn: Sólrún Svava Kjartansdóttir og Birna Eyfjörð. Leikmynd og búningar: Auður Ösp Guðmundsdóttir. Danshöfundar: Petra Reykjalín og Auður Anna. Ljósahönnun: Þórir Gunnar Valgeirsson og Þóroddur Ingvarsson. Tónlist: Janine Tesori. Textar: Lisa Kron. Íslensk þýðing á söngtextum: Einar Aðalsteinsson. Leikarar, hljómsveit, dansarar, leikmynd, hár, förðun, búningar og margt fleira: Nemendur Menntaskólans á Akureyri. Byggt á myndasögubókinni Fun Home: A Family Tragicomic eftir Alison Bechdel. Frumsýnt í Samkomuhúsinu á Akureyri 9. mars 2019, en rýnt í sýningu 15. mars 2019.

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sýnir bæði djörfung og metnað í vali á leikverki þetta árið. Viðfangsefnið er söngleikurinn Fun Home sem var fyrsti söngleikurinn sem sýndur var á Broadway þar sem aðalpersónan er lesbía. Í þýðingu Önnu Gunndísar leikstjóra heitir það Útfjör en nafnið er vísun í eitt af störfum fjölskylduföðurins í verkinu sem rekur útfararstofu meðfram því að vera móðurmálskennari. Leikritið fjallar um æsku og námsár Alison Bechdel og byggir á samnefndri sjálfsævisögu sem kom út í myndasöguformi árið 2006. Þekktust er Alison líklega fyrir að vera höfundur hins fræga Bechdel prófs. Söngleikurinn var frumsýndur í Bandaríkjunum árið 2013 og fékk hin eftirsóknarverðu Tony-verðlaun fyrir bestu tónlist, besta handrit og besta söngleikinn árið 2015.

Það fylgja því ýmsar áskoranir að aðlaga myndasögu að leiksviði. Það er leyst með því að sleppa sviðsmynd en nota þess í stað leikmuni til að mynda þá staði sem verkið gerist á. Sófi, bókaskápur og píanó afmarka þann hluta sviðsins sem leikið er á og með því að færa þessa hluti til er hægt að færa áhorfendur milli æskuheimilis Alison, útfararstofunnar, óhrjálegrar íbúðar í New York þar sem þarf að sofa á gólfinu og það eru fjórir lásar á útidyrahurðinni og einfaldur beddi sem er dreginn inn og út af sviðinu færir okkur inn í herbergi Alison á heimavistinni í Oberlin háskólanum. Þetta er snjöll og einföld lausn en henni fylgja líka ákveðnir annmarkar. Það getur tekið full langan tíma að færa þetta til í myrkrinu á milli atriða og hlutirnir sjálfir eru fyrirferðarmiklir og þrengja að leikurunum, skyggja stundum á dansarana og ef til vill minnka þeir smátt svið Samkomuhússins enn frekar. Enginn af þessum hnökrum dró þó úr mögnuðum áhrifamætti sögunnar.

Alison Bechdel er aðalsöguhetjan og þrír leikarar leika hana, hver á sínu aldursskeiði.

Fullorðin skoðar hún uppvaxtarár sín í Beach Creek í Pennsylvaníu í byrjun áttunda áratugarins og svo þann tíma þegar hún kom út úr skápnum á námsárum sínum við upphaf þess níunda. Vinnuborð myndasöguhöfundarins er inni á sviðinu allan tímann og þaðan rannsakar Alison hin elsta atburði lífs síns með hlutlægum hætti og lýsir því sem fyrir augu ber í myndatextum. Stöku sinnum hættir hún sér inn í söguna sjálfa til að horfa yfir öxlina á yngri útgáfum af sjálfri sér og gefur með því áhorfendum vísbendingu um að eitthvað sérstaklega mikilvægt sé á seyði. Faðir Alison er Bruce Bechdel, fyrrverandi hermaður sem glímir við eigin samkynhneigð á tímum þar sem slíkt var álitið synd og jafnvel greint sem geðveiki. Hvorki Alison hin yngsta né háskólaneminn Alison gera sér grein fyrir kynhneigð föður síns fyrr en ungu lesbíunni sem er nýkomin út úr skápnum er sagt frá henni berum orðum en nútímaáhorfandi velkist aldrei í vafa. Það eru dregnar upp mjög sterkar andstæður af aðstæðum þeirra feðgina. Þó það sé erfitt fyrir ungu konuna að koma út úr skápnum upp úr 1980 var það einfaldlega óhugsandi fyrir föður hennar á eftirstríðsárunum.

Fyrir utan magnaða söguna er Útfjör fyrst og fremst söngleikur. Áhrifamikil tónlistin ber verkið uppi og hljómsveitin skilar sínu frábærlega undir dyggri forystu tónlistarstjórans Birnu Eyfjörð. Það kemur ekki á óvart að þessi tónlist sé marg verðlaunuð en söngvararnir koma hins vegar á óvart. Það er nánast ótrúlegt að ungir menntaskólanemar geti komið fram og sungið af þessu öryggi, því söngurinn jafnast ekki bara á við það sem heyrist á sviðum atvinnuleikhúsanna heldur tekur þeim jafnvel fram. Það er ekki á neinn hallað þó sérstaklega sé minnst á Jónu Margréti sem leikur mið Alison. Flutningur hennar á ástaróðnum til Joan eftir að hún áttar sig á kynhneigð sinni er með því besta sem ég hef séð í íslensku leikhúsi.

Reynsluleysi leikaranna birtist aðallega í meðferð leiktextans sem stundum er hikandi og brösótt, nema í túlkun Eikar Haraldsdóttur á Alison hinni yngstu.  Hún stígur ekki eitt feilspor í sínu hlutverki og hrífur alla með sér. Hún á sannarlega framtíðina fyrir sér ef hún ákveður að að feta sig út á leiklistarbrautina enda augsýnilega uppfull af hæfileikum á því sviði. Telma Lind sem Alison hin elsta er á sviðinu allt verkið, fylgist með og leggur orð í belg á réttum stöðum. Það er gífurlega krefjandi og erfitt að halda einbeitingu allan þann tíma, sérstaklega þegar hún er í hlutverki áhorfandans, en Telma leysti það vel af hendi. Sérstakt hrós fær Ari Orrason sem Bruce Bechdel. Þrátt fyrir smávægilega erfiðleika með textann hafði hann svo sterka nærveru og mikinn kraft að maður efaðist aldrei um að þarna færi lífsreyndur eldri maður sem væri mörgum árum eldri en aðrar persónur verksins sem þó eru allar leiknar af jafnöldrum hans.

Auk aðalleikaranna eru fjöldamörg minni hlutverk og dansarar í sýningunni. Það er afrek að danshöfundunum, Petru Reykjalín og Auði Önnu, hafi tekist að útbúa virkilega vel útfærð og hrífandi hópatriði á þessu litla sviði og í kringum þessa þungu og stóru leikmuni. Dansararnir eru allir vel samhæfðir og þessi fjölmennu dansatriði lyfta söngleiknum á annað stig þannig að hann fær á sig yfirbragð alvöru stórsýningar.

-Daníel Freyr Jónsson

 


Athugasemdir

Nýjast