Útblástur af völdum skemmtiferðaskipa vart merkjanlegur

EFLA hefur tekið saman  niðurstöðu loftgæðamælinga Umhverfisstofnunar, sem unnin var að beiðni Pétur…
EFLA hefur tekið saman niðurstöðu loftgæðamælinga Umhverfisstofnunar, sem unnin var að beiðni Péturs Ólafssonar hafnarstjóra hjá Hafnasamlagi Norðurlands í tengslum við umfjöllun og umræður í samfélaginu um mengun frá skemmtiferðaskipum.

Útblástur af völdum skemmtiferðaskipta í miðbæ Akureyrar var á fyrstu 6 mánuðum þessa árs mjög lítil og vart merkjanlegur, ef frá eru taldir örfáir toppar sem allir reyndust þó undir heilsuverndarmörkum.  Þetta kemur fram í minnisblaði sem EFLA hefur tekið saman um niðurstöðu loftgæðamælinga Umhverfisstofnunar, sem unnin var að beiðni Péturs Ólafssonar hafnarstjóra hjá Hafnasamlagi Norðurlands í tengslum við umfjöllun og umræður í samfélaginu um mengun frá skemmtiferðaskipum. „Ég fagna því að hafa í höndum mat fagaðila um þetta mál,“ segir Pétur.

Sjálfvirkur mælir Umhverfisstofnunar á Akureyri er staðsettur við menningarhúsið Hof við Strandgötu, á milli hafnarinnar og miðbæjar Akureyrar, hann er í um tveggja metra hæð frá jörðu og annast símælingu á svifryki, brennisteinsdíoxíði, niturmónoxíði og niturdíoxíði. Niðurstöður mælinga í rauntíma má sjá á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 Sólarhringsmeðaltal svifryks hefur níu sinnum farið yfir heilsuverndarmörk frá því í febrúar síðastliðnum, seinast þann 12. apríl „og því ekki hægt að tengja þessa sérstöku háu toppa, þar sem sólarhringssvifryksstyrkur hefur farið yfir viðmiðunarmörk svifryks í miðbæ Akureyrar, við útblástur frá skemmtiferðaskipum,“ segir í minniblaði Eflu. Meðalsólarhringsstyrkur svifryks í maí, júní og júlí eftir að komur skemmtiferðaskipa hófust er umtalsvert lægri en í febrúar, mars og apríl.

 Vindur gæti hafa þyrlað upp svifryki

 Klukkustundargildi gefa betri mynd af mengun frá skemmtiferðaskipum, segir í minnisblaðinu en hæsta klukkustundarmeðaltal svifryks var þann 6. maí. Ekkert skemmtiferðaskip var í höfn þann dag. Dagana 5. og 6. maí, ásamt 20. maí mældist mikið svifryk í miðbænum, en það voru vindasamir dagar og líklegt að vindur hafi þyrlað upp ryki sem orsakaði há mæligildi. Bent er á að fjögur skemmtiferðaskip voru í höfn 5. júlí en hæsta klukkustundargildi svifryks var ekki ýkja hátt þann dag. Það þykir benda til að svifryksmengun í miðbæ Akureyrar eigi ekki uppruna sinn í útblæstri skemmtiferðaskipa.

 

Veðurfari hefur töluverð áhrif á hversu mikil mengun mælist hveru sinni

 

Styrkur niturdíoxíðs hefur aldrei farið yfir heilsuverndarmörk á tímabilinu, fyrstu 6 mánuðum ársins og er vel undir þeim mörkum allt tímabilið og er getum að því leitt að veðurfar hafi töluverð áhrif á hversu mikil mengun mælist hverju sinni.

 Styrkur brennisteinsdíoxíðs hefur verið mjög lítill og stöðugur á tímabilinu og aldrei verið nálægt því að fara yfir heilsuverndarmörk. Lítill toppur mældist þó þann 23. júní þegar hæsta klukkustundarmeðaltal fór upp í 22,8 μg/m3. Þann dag var í höfn skemmtiferðaskip sem var smíðað árið 1972 og gæti gamall vélbúnaður og hönnun mögulega hafa orsakað þennan topp, sem þó var langt undir heilsuverndarmörkum


Nýjast